Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vel fylgst með framvindunni í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa fylgst vel með atburðum á Reykjanesskaga í dag og í kvöld. Svæðið verður áfram vaktað í nótt og rannsóknir og mælingar halda svo áfram á morgun. „Óróapúlsinn sem tók að greinast í morgunn er ennþá greinilegur, sérstaklega á öllum jarðskjálftastöðvunum á Reykjanesskaga. Það hefur heldur minnkað virknin en áfram er talsverð jarðskjálftavirkni á svæðinu og við vöktum þetta náið í nótt,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það verða tveir á vakt í alla nótt. Einn að pikka jarðskjálfta og annar að fylgjast með óróa og öðrum mælitækjum,“ segir Einar og kveður ekkert fara framhjá þeim. „Nei, svo sannarlega ekki.“

Jörð hefur haldið áfram að skjálfa. Klukkan tólf mínútur í tólf mældist jarðskjálfti upp á 3,4 á fimm kílómetra dýpi 3,4 kílómetra austsuðaustur af Fagradalsfjalli.

Áfram verður unnið að rannsóknum næstu daga. Í gærkvöld var von á nýjum gervihnattarmyndum sem talið er að geti varpað frekara ljósi á stöðu mála. Þær myndir þarf að greina og túlka. Viðbúið er að þeirri vinnu verði lokið um hádegisbil, sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, í viðtali við RÚV í gær, miðvikudag.

Ef til eldgoss kemur eru allar líkur á að það verði lítið.