Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þrennt í lífshættu eftir hnífaárás í Smálöndum

04.03.2021 - 01:44
Maður réðist á gangandi vegfarendur í bænum Vetlanda í sænsku Smálöndunum 3. mars 2021 og særði átta menns með eggvopni áður en lögregla náði að stöðva hann. Þrennt særðist lífshættulega, tvö hlutu alvarleg sár en þrjú minniháttar meiðsl.
 Mynd: svt
Þrennt er í lífshættu eftir að maður réðist á gangandi vegfarendur í bænum Vetlanda í sænsku Smálöndunum síðdegis í gær og lagði til þeirra með eggvopni. Alls særðust átta manns í árásinni; þrjú lífshættulega, tvö alvarlega en þrjú hlutu minni áverka, samkvæmt frétt sænska ríkissjónvarpsins SVT. Þá hlaut árásarmaðurinn skotsár þegar lögregla greip inn í, en sár hans munu ekki vera lífshættuleg. Lögregla kannar nú hvort flokka skuli árásina sem hryðjuverk.

Lögreglu barst tilkynning um alvarlega árás á gangandi vegfarendur í miðbæ Vetlanda um klukkan 15 í gær að staðartíma. Aðeins liðu þrjár mínútur frá því að fyrstu lögreglumenn komu á vettvang þar til búið var að yfirbuga árásarmanninn og bera kennsl á hann. Maðurinn mun vera á sakaskrá fyrir minniháttar afbrot.

Árásin er rannsökuð sem morðtilraun, en auk þess hefur rannsóknin leitt í ljós ákveðin atriði sem valda því að lögregla rannsakar líka, hvort árásin flokkist mögulega sem hryðjuverkaárás. Lögregla hefur ekki látið neitt uppi um það, hvaða atriði það eru sem vekja þennan grun. Árásarmaðurinn er á sjúkrahúsi þar sem gert er að sárum hans, og verður yfirheyrður við fyrsta tækifæri. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV