Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur ólíklegt en ekki útilokað að gos sé að hefjast

Mynd: Einar Rafnsson / Einar Rafnsson
Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur og sérfræðingur um eldgos á Reykjanesskaga, telur afar ólíklegt að eldgos sé hefjast í Fagradalskerfinu. Hann segir þó að ekki hægt að útiloka slíkt þar sem lítið sem ekkert sé vitað um aðdraganda slíks goss.

Sigmundur segir að horfa þurfi til þess að reynslan af eldgosum á Reykjanesskaga er margra alda gömul. Engar mælingar eða lýsingar séu til af eða um upplifunina.

Sigmundur var í viðtali í þættinum Hádegið á Rás eitt en hann hefur um áratuga skeið rannsakað Reykjanesskagann og eldstöðvakerfin sex. Skagann segir Sigmundur vera yngsta hluti Íslands og nokkuð eldbrunninn. 

Fagradalskerfið hefur verið í brennidepli undanfarið en auk þess eru Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill á svæðinu.

Kerfið hefur ekki látið á sér kræla svo árþúsundum skiptir, engin eldvirkni hafi verið þar eftir að ísöld lauk fyrir um 10 þúsund árum.

Fagradalssvæðið einkennist af móbergsmyndunum

Sigmundur segir Fagradalssvæðið einkennast af móbergsmyndunum en þar sé sprungan sem nú er talin vera að fyllast af kviku. Sú sprunga gangi til suðvesturs frá Keili að Litla-Hrúti.

Hann segir mikla eldvirkni hafa verið í Reykjaneskerfinu á fyrri hluta 13. aldar og á seinni hluta þeirrar tólftu í Krýsuvíkurkerfinu. Þar hafi helst gosið eftir landnám en ekki hefur orðið gos á Hengilssvæðinu á þeim tíma. Oft hafi gosið í kringum Eldey.

Að sögn Sigmundar er ekki vitað hvar kvikan gæti komið upp, en að líklegast sé að það gerist frá þessum kvikugangi milli Litla-Hrúts og Keilis. Það sé í gamla hrauninu sem rann úr þeirri stóru dyngju sem er kölluð Þráinsskjöldur og rann fyrir um 11 þúsund árum.

Dyngjugosahrinur hafa orðið öðru hverju

Þráinsskjöldur er norðaustur af Fagradalsfjalli en mikil hraun hafa runnið þaðan til suðurs, vesturs en öllu mest til norðurs. Þar heitir Þráinsskjaldarhraun en nánast öll byggðin í Vogum og á Vatnsleysuströnd stendur í þessu hrauni. 

Sigmundur segir dyngjugosahrinur hafa orðið öðru hverju, sú fyrsta í lok ísaldar og svo aftur fyrir um 5.000 árum. Þá hafi myndast tvær eða þrjár stórar dyngjur.

Hraun úr dyngjugosum eru þunnfljótandi og flæða langar leiðir og eldvirkni getur jafnvel varað um áratugaskeið. Sigmundur telur heldur langsótt að ætla að eitthvað slíkt gæti verið í aðsigi en þó sé sprungan á því belti.

Sigmundur rifjar upp að samkvæmt annálum hófst goshrina í sjó um árið 1210 og að Eldey hafi sennilega myndast þá. Gosið hafi teygt sig upp á land og að því hafi lokið um 1240 úti í sjó.

Hann kveður einnig heimilir vera til um goshrinu í Trölladyngju á árabilinu 1150 til 1190 en að óljóst sé um goshrinu í Brennisteinsfjöllum á 10. öld. Aldursákvarðanir bendi til að sú hrina hafi staðið í marga áratugi.

Einnig séu til upplýsingar um gos sem varð skömmu fyrir landnám og tengdust áðurnefndum hrinum. Því sé óljóst hvort goshrinur hafi staðið í áratugi eða jafnvel tvö til þrú árhundruð.  

Sigmundur rifjar upp að Kröflueldar stóðu í tæpan áratug, með sex til sjö misstórum gosum á árabilinu 1975 til 1984. Goshrina nú gæti staðið í áratug eða meira að ýmislegt bendi til að umbrotin nú séu annars eðlis.

Engar upplýsingar til um gos í Fagradalskerfinu

Hann ítrekar að engar upplýsingar séu til um eldgos í Fagradalskerfinu. „Við höfum ekkert betra til að miða við en þessar goshrinur í hinum kerfunum. Eldgosin sem hafa orðið þarna á fyrri öldum hafa verið sprungugos með allt að 10 kílómetra löngum sprungum.“

Sigmundur segir gosin hafa verið lítil flæðigos með nánast engri gjóskumyndun. Þó megi sjá smávægilega ösku umhverfis gígana. Á þrettándu öld segir hann eina gossprungu hafa náð út í sjó og þá hafi orðið töluvert öskufall.

Gos á þessu svæði gæti orðið það sem Sigurður Þórarinsson kallaði „túristagos“ en ekki sé ekki auðvelt að komast að til að fá yfirsýn. Helst væri hægt að fara á fjöll en ekki sé lengur sama frjálsræði kringum eldgos og var fyrrir nokkrum áratugum.

Sigmundur undirstrikar að þótt hann sé efins um að gos sé að hefjast, sé aldrei hægt að segja að svo verði ekki. Hann kveður sérfræðinga í náttúruvá bera mikla ábyrgð, þeir skuli vara við hvort sem þeir trúa því að gos verði eða ekki.

„Það er erfitt að halda fram að þetta fólk sé að gera of mikið úr hættunni,“ segir Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur. 

Hádegið er daglegur fréttaskýringaþáttur á Rás 1 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur. Þátturinn er aðgengilegur í Spilaranum á RÚV.is og á á öllum helstu hlaðvarpsveitum.