Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Myndir úr gervitunglum sýna ekki miklar breytingar

Mynd: RÚV / RÚV
Myndir frá gervitunglum af skjálftasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls á Reykjanesskaga sýna ekki miklar breytingar á yfirborðinu eftir skjálftaóróann sem tók sig upp í gær. Þetta segir Sigurjón Jónsson, prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah háskólann í Sádí Arabíu. Talið var að óróinn væri undanfari eldgoss en heldur rólegt hefur verið yfir svæðinu í dag.

„Við vorum í rauninni nýbúin að fá þessar myndir fyrir vísindaráðsfundinn núna áðan og rétt aðeins farin að skoða þetta. Þar virtist nokkuð ljóst að ferlið hefur haldið áfram, við sjáum engar stórkostlegar breytingar á aflögun yfirborðsins sem hægt er að tengja við þennan skjálftaóróa sem byrjaði þarna upp úr klukkan tvö í gær,“ segir Sigurjón. 

Ekki merki um að kvika sé að nálgast yfirborð

Hann segir að þróun jarðhræringa á Reykjanesskaga upp á síðkastið hafi verið mjög lífleg en ekki mjög hröð. Hann segir að gervitunglamyndin gefi góða mynd af stöðunni og hvernig aflögunin líti út. „Það sem við sjáum í þessari nýju radarmynd er að þarna er áframhaldandi opnun og þessi stöðuga skjálftavirkni sem hefur haldið áfram síðustu daga er samfara þessari opnun og þetta á miðju sína í þessu Fagradalsfjalli,“ segir Sigurjón. Hann segir að það eigi eftir skoða myndirnar betur en það virðist ekki vera miklar breytingar frá því síðasta mynd var tekin, sérstaklega hvað kvikuna varðar og staðsetningu hennar. „Við sjáum ekki merki um að þetta sé eitthvað að grynnast eða koma nær yfirborði enn sem komið er.“ 

Sigurjón segir svæðið á Reykjanesskaga nokkuð sérstakt og frekar litlar kvikuhreyfingar geti jafnvel valdið hreyfingum á landi, eins og sást til dæmis við Þorbjörn í fyrra. „Það er ekkert endilega líklegt að þessi kvika sem nú er að hreyfast finni sér leið upp á yfirborðið. Okkur sýnist ekki endilega vera mikill þrýstingur á þessu kerfi, þetta er meira að togna og kvika kannski að svara því að landið hefur verið að teygjast í sundur og, hvað getur maður sagt, búa til smá pláss til þess að efnið geti farið eitthvað upp á við, en ekkert endilega alla leið upp á yfirborð,“ segir Sigurjón.