„Landslið jarðvísindamanna var saman komið á Teams“

Hvers vegna ruku vísindamennirnir til í gær og hvað er óróapúls?
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hvað varð til þess að vísindamenn og almannavarnir ruku til og sögðu frá því að eldgos væri hugsanlega handan við hornið á Reykjanesskaga? Og hvernig skýrum við þetta nýja hugtak óróapúls?

Það var alger tilviljun sem stýrði því að fundur vísindaráðs almannavarna var nýhafinn þegar merki um óróa gerðu vart við sig á mælum Veðurstofu Íslands. Fyrsta viðbragð vaktarinnar á Veðurstofunni er að hringja í almannavarnir þegar svona merki gera vart við sig.

Elísabet Pálmadóttir (á mynd hér að neðan), náttúruvársérfræðingur á vakt Veðurstofu Íslands, segir að það hafi orðið ljóst nokkrum mínútum eftir að mælarnir greindu breytta hegðun jarðhræringanna að eitthvað væri að að breytast. 

„Það þurfti ekki að hringja eins mörg símtöl vegna þess að landslið vísindamanna var saman komið á Teams,“ segir Elísabet. Það fengu allir upplýsingarnar á sama tíma og viðbragðsáætlun Veðurstofunnar var virkjuð. Um leið gripu almannavarnir til sinna ráðstafana til þess að tryggja líf og eignir fólks.

Hvað er óróapúls?

Óróapúls og gosórói stafar af hreyfingu bergkviku í jarðskorpunni. Óróinn er ólíkur jarðskjálftum – hnik- eða brotskjálftum – sem verða til við skyndilega losun spennu í bergi. Uppspretta óróa er samfelld spennulosun og birtist sem löng röð smáskjálfta.

Á þennan hátt er þessu lýst á Vísindavefnum. Á myndriti birtast þessar tvær tegundir jarðskjálfta svona:

Þegar jarðskjálfti ríður yfir losnar mikill kraftur í byrjun og bylgjurnar á skjálftaritinu geta orðið stórar. Þær minnka svo eftir því sem líður frá. Óróapúlsinn lýsir sér sem stöðugu tifi smærri jarðskjálfta.

Búið er að koma upp neti sjálfvirkra jarðskjálftamæla á Íslandi sem senda upplýsingar í rauntíma á Veðurstofuna. Þar eru jarðskjálftarnir greindir og metnir.

óróapúls

Þegar óróapúlsinn greindist á mælum veðurstofunnar í gær leit myndritið út eins og á myndinni hér til hliðar. Margar og endurteknar litlar bylgjur.

Til samanburðar má sjá jarðskjálftann sem reið yfir um hálf sex í morgun. Sá skjálfti mældist 4,5 að stærð. Stór bylgja í upphafi sem fjarar hratt út.

Jarðskjálftavirknin jókst mikið þegar óróinn greindist. Hér að neðan má sjá fjölda jarðskjálfta samkvæmt skjálftayfirliti Veðurstofu Íslands síðustu tvo sólarhringa, miðað við hádegi í dag, fimmtudag. Rauð lína er dregin þegar óróinn hefst, laust eftir klukkan 14 í gær.

Hvað er að gerast?

„Flestir jarðvísindamenn sem eru að fylgjast með þessu telja þessi atburðarás bendi til þess að þarna sé kvika að færast í jarðskorpunni, segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands.

„Það sem gerist í gær er að jarðskjálftavirknin verður það þétt að það myndast svona eins og samfelldur órói. Og það stendur yfir í langan tíma og fram á nótt. Það er svo eins og það dragi úr ákafanum og að það líði lengra á milli þessara jarðskjálfta. Það sem við sjáum núna er að síðustu þrjá tímana hefur verið rólegt.“

Skjálftaritið á mælinum í Krýsuvík birtist jarðvísindamönnum svona á Veðurstofu Íslands:

„Þetta er svona hviðótt,“ segir Kristín og á við að það hægist á skjálftahrinunni öðru hvoru áður en hún eykst á ný. „Þannig að inn á milli þá koma öflugar hviður og stundum stærri skjálftar. Við erum að fylgjast vel með staðsetningu skjálftanna því við teljum að hún gefi vísbendingar um hvar kvikan er að hreyfa sig.“

Jarðskjálftavirknin hefur færst nær Fagradalsfjalli síðan í gær. Það er líklegast að kvikan hafi verið að færast lárétt til suðvesturs í nótt, að mati Kristínar.

04.03.2021 - 14:54