Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Heimsglugginn: Sturgeon í kröppum dansi

Mynd: EPA-EFE / Scottish Parliament
Íhaldsflokkurinn í Skotlandi hefur lagt fram vantrauststillögu á Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands og leiðtoga Skoska þjóðarflokksins, SNP, vegna meintra ósanninda hennar um meðferð kærumála kvenna á Alex Salmond, fyrrverandi leiðtoga SNP. Sturgeon bar vitni fyrir þingnefnd í allan gærdag. Fréttaskýrendur telja hana hafa staðið af sér atlögu Íhaldsmanna sem þó segja spurningum ósvarað og ætla að halda vantrauststillögunni til streitu.

Voru vinir, núna fjandmenn

Nicola Sturgeon og Alex Salmond voru nánir vinir og samstarfsmenn uns Salmond var ákærður fyrir kynferðislega áreitni árið 2018 en sú vinátta er fyrir bí og Salmond segir nú að Skoski þjóðarflokkurinn, undir forystu Sturgeon, standi að baki ofsóknum gegn sér.

Mette Frederiksen gagnrýnd fyrir að vilja bóluefni frá Ísrael

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, fer til Ísraels í dag, ásamt Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, til að leita samstarfs við Ísraelsmenn í bólusetningum. Hærra hlutfall Ísraelsmanna hefur verið bólusett en gengur og gerist í öðrum löndum vegna samnings sem ríkisstjórn landsins gerði við Pfizer um bólusetningar í landinu. Nú vill Frederiksen vita hvort Danir geti fengið bóluefni hjá Ísraelsmönnum gangi eitthvað af.

Vilja að Palestínumenn fái bóluefnið ekki Danir

Frederiksen er gagnrýnd af fólki á vinstri kanti stjórnmálanna heima fyrir sem segir að Palestínumenn eigi að fá bóluefnið. Mai Villadsen, nýr leiðtogi Einingarlistans, segist hafa áhyggjur af samstarfi við ísraelsku stjórnina sem klárlega brjóti alþjóðarétt með því að bólusetja ekki íbúa hersetnu svæðanna.