Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Foreldrar krefjast tafarlausra úrbóta í Fossvogsskóla

Fossvogsdalur, útivistarsvæði, útivist, göngustígar, leiktæki, hjólastígar. Leiksvæði.
 Mynd: Reykjavíkurborg - Aðsend mynd
Foreldrar barna, sem hafa fundið fyrir veikindum vegna mygluvanda í Fossvogsskóla, telja mjög alvarlegt að foreldrum hafi ekki verið greint frá því tafarlaust að skaðlegar sveppategundir finnast víða í skólanum. Borgin hljóti að íhuga að rýma skólann þar til lausn er fundin.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem foreldrarnir sendu á borgaryfirvöld í byrjun vikunnar. Þar segir einnig að niðurstöður Náttúrufræðistofnunar Íslands og minnisblöð frá Verkís sem sýna fram á mygluna hafi legið fyrir í desember 2020.

Gró og mengun enn í skólanum

Sýnatakan hafi leitt í ljós að þrátt fyrir ítarleg þrif og sótthreinsun sé gró og mengun af völdum þessara myglutegunda enn til staðar í skólanum, að því er fram kemur í yfirlýsingu foreldranna.

Niðurstöðurnar hafi þó ekki verið birtar fyrr en í febrúar á vef borgarinnar og ekki kynntar foreldrum sérstaklega. Foreldrarnir segja jafnframt að heildarskýrsla um málið hafi ekki verið birt. 

Á sama tíma veikist börnin, og það sé að öllum líkindum vegna þess að þeim er gert að stunda nám í menguðu húsnæði þar sem skaðlegar sveppategundir hafa tekið sér bólfestu.

Vandann sé ekki hægt að leysa með einstaklingsbundnum úrræðum. 

Margvísleg einkenni hjá börnunum sem veikst hafa

Foreldrarnir tóku saman lista yfir einkenni hjá þeim börnum sem hafa veikst í skólanum.

Þar eru talin upp bólgur og sýkingar, ennis og kinnholusýkingar, eyrnaverkir, augnsýkingar, útbrot og erting í húð (skrifhúð), rósroði, exem. Hækkaður líkamshiti, vöðvaverkir og liðverkir.  

Höfuðverkur, tannverkur, kláði í húð, sár í munnvikum, táramyndun, suð í eyrum, blóðnasir. Magaverkir, ógleði, niðurgangur, harðlífi og bakflæði. Auk þess hafi einbeitingarleysis orðið vart, óeyrð í líkama og óútskýrðrar þreytu.

Jafnframt glími börnin við náttblindu, ljósfælni og viðkvæmni fyrir hávaða, kæki, taugakippi og stam.

Mjög eitruð sveppagró

Niðurstöður Náttúrufræðistofnunar Íslands leiði í ljós að minnst 11 sýni tekin undir lok árs 2020 á fjórtán svæðum innihaldi gró kúlustrýnebbu.

Hún myndi frumueitur sem komi í veg fyrir frymisskiptingu og flutning glúkósa í vefjum. Í fyrstu sýnatöku í mars 2019 hafi hana verið að finna víða um skólann.

Sömuleiðis hafi fundist gró litafruggu í að minnsta kosti níu sýnum. Í yfirliti frá Náttúrufræðistofnun kemur fram að litafrugga framleiði eitthvað hættulegt sveppaeiturefni sem geti verið ákaflega krabbameinsvaldandi.

Erfitt sé að sjá við sveppum nema nema upptök þeirra finnist, að því er segir í áliti Náttúrufræðistofnunar.

Gró beggja framangreindra sveppategunda dreifist um skólann, litafruggugró dreifist mjög auðveldlega og geti farið í öndunarfæri.

Borgin setji úrlausn mála í forgang

Foreldrarnir krefjast þess að úrlausn verði sett í forgang. „Við minnum á Reykjavíkurborg þverskallaðist lengi við að láta ofangreinda sýnatöku fara fram og hélt því jafnvel fram að Verkís væri andvígt slíkri sýnatöku.“ 

Í yfirlýsingu foreldranna segir að traust þeirra til borgarinnar sé brostið. Þess sé krafist að fleiri sýni verði tekin, víðar um skólann og rót vandans leitað.

Setja þurfi heilsu barna og starfsfólks í forgang með því finna varanlega lausn á vandamálinu. 

Foreldrar barna í Fossvogsskóla fara fram á að gagnsæ verkáætlun um verði lögð fram og þau upplýst um hvert skref. Jafnframt fái þau upplýsingar um niðurstöður um leið og þær berist. 

Borgin hljóti að íhuga að rýma skólann uns lausn er fundin enda sé á hennar ábyrgð að sjá til þess að nemendum og starfsfólki sé búið húsnæði sem ekki sé skaðlegt heilsu þeirra. 

Viðbrögð Reykjavíkurborgar

Í athugasemd frá Reykjavíkurborg, sem barst fréttastofu síðdegis, segir að sýni hafi verið tekin í skólanum í byrjun desember og rétt fyrir jól.

Tíma hafi tekið að greina þau hjá Náttúrufræðistofnun en niðurstöðurnar verið kynntar foreldraráði Fossvogsskóla um leið og þær lágu fyrir í síðustu viku.

Þar segir einnig að Verkís hafi eftir fund með foreldraráðinu tekið saman minnisblað eða skýrslu um niðurstöðurnar. Þetta minnisblað hafi verið birt á vef Reykjavíkurborgar.

Þar sé hægt er að kynna sér framvindu framkvæmda og allar skýrslur og niðurstöður sem til eru í málinu.

Niðurstöðurnar hafi því verið kynntar foreldrasamfélaginu og gerðar opinberar um leið og þær lágu fyrir, að því er fram kemur í athugasemd frá Reykjavíkurborg.

Fréttin var uppfærð klukkan 19:09 4. mars 2021.