Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Enn stefnt á EM út um allt

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Enn stefnt á EM út um allt

04.03.2021 - 09:46
UEFA, Evrópska knattspyrnusambandið segir að enn sé stefnt að því að EM karla í fótbolta verði spilað í 12 mismunandi borgum víðs vegar um Evrópu í sumar. Boris Johnson forsætisráðherra Breta lýsti fyrr í vikunni Breta reiðubúna til að taka allt mótið til sín í ljósi COVID-19 heimsfaraldursins.

Nokkrir leikir verða hvort sem er spilaðir á Wembley í Lundúnum. Allir þrír leikir Englands í riðlakeppninni verða þar og þá verða báðir undanúrslitaleikir EM sem og úrslitaleikur mótsins spilaðir á Wembley. Annars eru það 12 mismunandi borgir frá jafn mörgum löndum sem eiga að halda mótið í sameiningu.

Sky Sports hefur það eftir UEFA í dag að enn sé unnið eftir upphaflegu plani. Ekkert annað komi til greina í augnablikinu en að spila EM í sumar í öllum þessum 12 borgum. Það er því enn unnið eftir því að leikið verði í Amsterdam, Bakú, Bilbao, Búkarest, Búdapest, Kaupmannahöfn, Dublin, Glasgow, Lundúnum, Münchebn, Róm og St. Pétursborg.

Upphafsleikur EM í sumar á að fara fram á Ólympíuleikvanginum í Róm þann 11. júní milli Ítala og Tyrkja í A-riðli.