Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Enn líkur á eldgosi þó dregið hafi úr virkni

04.03.2021 - 12:42
Mynd: RUV / RUV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að þrátt fyrir að það hafi dregið úr virkninni sem hófst í gær hafi ekki dregið úr líkum á eldgosi. Vel er fylgst með staðsetningu skjálftavirkninnar sem gefur vísbendingar um hvar kvika sé á ferð undir yfirborðinu.

„Ég held að flestir jarðvísindamenn sem eru að fylgjast með þessu séu sammála því að öll þessi atburðarás og þessi virkni bendi til þess að þarna sé kvika að færast í jarðskorpunni. Það sem að gerist í gær er að jarðskjálftavirknin verður það þétt að það myndast eins og samfelldur órói og stendur í langan tíma og fram á nótt. Svo er eins og það minnki aðeins eða dregur úr ákafanum og líður aðeins lengra á milli skjálfta. Það sem að við sjáum núna síðustu þrjá tímana hefur þetta verið frekar rólegt en þetta er hviðótt, inn á milli koma öflugar hviður og stundum stærri skjálftar og við erum auðvitað að fylgjast mjög vel með staðsetningunni á skjálftunum því við teljum að hún gefi vísbendingar um það hvar kvikan er að færa sig,“ sagði Kristín í hádegisfréttum.

Kristín segir líklegt að kvikan sé að færast nær Fagradalsfjalli og því nær Grindavík. Skjálftavirkni hafi einnig aukist nærri Grindavík, skammt frá Þorbirni, en það sé líklega vegna spennu á því svæði en ekki kviku. „Það er skjálftavirkni núna, einstaka skjálftar að mælast nær Grindavík en dýpið á þeim er alveg um 5 km, það er alveg hugsanlega til marks um spennu á svæðinu en ekki ákkúrat að kvika sé að hreyfast þar. Ég held að við eigum frekar að horfa á þessu færslu til suðvesturs frá hrútfelli, þar er mesti ákafinn í virkninni,“ segir Kristín.