Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Atburðarásin í gær virðist hafa verið mjög hröð“

Mynd: RUV / RUV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að atburðarásin í gær virðist hafa verið mjög hröð og að kvikan í kvikuganginum við Fagradalsfjall hafi færst um nokkrar kílómetra á nokkrum klukkustundum. Það kom vísindamönnum á óvart að færslurnar á svæðinu skyldu ekki hafa verið stærri vegna óróapúlsins sem mældist í gær.

Skjálftavirkni á Reykjanesskaga er enn mikil þótt skjálftarnir sjálfir séu ekki jafn kröftugir og þeir hafa verið síðustu daga. Korter yfir sjö í kvöld varð jarðskjálfti um 4,1 að stærð um 2 kílómetra norður af Grindavík.  Hann fannst mjög vel þar og á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er fyrsti skjálftinn sem er yfir 4 að stærð síðan níu leytið í morgun. 

Vísindaráð almannavarna sendi frá sér tilkynningu síðdegis þar sem sagði að „að nýjustu mælingar og gögn sýni að þau merki sem komu fram í gær um að veruleg hætta væri á gos gæti hafist á næstu klukkustundum hafi dofnað mjög.“ Með öðrum orðum, eldgos væri ekki yfirvofandi.

Kristín sagði í kvöldfréttum RÚV að það sæist á nýrri gervitunglamynd að kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli væri að stækka. „En það kom okkur á óvart að færslurnar væru ekki stærri vegna óróapúlsins í gær.“ 

Kristín segir þetta benda til þess að atburðarásin í gær hafi verið mjög hröð  og kvikuhlaup hafi orðið til suðvesturs. Nýja gervitunglamyndin sýnir að kvikugangurinn hafi stækkað örlítið  og því sé nauðsynlegt að fylgjast áfram vel með. „Við sjáum engar vísbendingar um að kvika sé nálgast yfirborðið og á meðan þetta er svona bíðum við bara. Við vitum að þetta getur verið kaflaskipt og tekið langan tíma.“

Í tilkynningu vísindaráðs kom fram að Kröflueldar á árunum 1975 til 1984 væru gott dæmi um kaflaskipta virkni þar sem kvika kemst á hreyfingu og framkallar púlsa með tíðum smáskjálftum. „Þar einkenndist virknin af talsverðri skjálftavirkni og kvikuhreyfingum samfara púlsum með smáskjálftavirkni.  Í sumum tilfellum urðu eldgos, í öðrum ekki.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV