Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það eru engar hamfarir að fara í gang“

Mynd: Skjáskot / RÚV
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, segir ekki staðfest að eldgos sé hafið. Óróapúls haldi hins vegar áfram og það sé eitthvað sem gerist í aðdraganda eldgoss.

Það sé á þessu svæði sem jarðskjálftar síðustu daga hafa verið. Það sé líklegra en ekki að eldgos sé að hefjast og það geti gerst á næstu klukkustundum. „Það eru engar hamfarir að fara í gang.“

Engin ástæða sé til að óttast, almannavörnum hafi borist símtöl um hvort taka eigi börn úr skóla. Vísindamenn munu fljúga yfir svæðið með þyrlu Landhelgisgæslunnar og Víðir biðlar til fólks um að fara ekki að keyra á staðinn.

„Það síðasta sem við þurfum núna er að fá eitthvað slys á Reykjanesbrautinni.“ Hann ítrekar fyrri yfirlýsingar, um að enginn sé í hættu og að gos sé ekki hafið.