Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skjálfti af stærðinni 4,1 varð laust eftir tvö í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Eftir um fjórtán klukkustunda tímabil þar sem enginn skjálfti mældist þrír eða stærri og fæstir þeirra stærri en tveir reið snarpur skjálfti yfir Reykjanesskagann þegar klukkan var tólf mínútur yfir tvö í nótt. Hann var 4,1 að stærð. Upptök hans voru á 5,4 kílómetra dýpi, 2,4 kílómetra aust-norðaustur af Fagradalsfjalli. Annar nokkru minni skjálfti, 3,2 að stærð, fylgdi í kjölfarið nokkrum mínútum síðar. Báðir skjálftar urðu við norðurenda Fagradalsfjalls þar sem virkni hefur verið hvað mest.

Þúsundir skjálfta á nokkrum dögum

Yfir 14.000 skjálftar hafa riðið yfir Reykjanesskagann frá því að þessi mikla jarðskjálftahrina hófst hinn 24. febrúar, þar af um tvö þúsund síðasta sólarhringinn. Kvikugangur hefur myndast milli Fagradalsfjalls og Keilis. Hann er eins og hálfs metra breiður samkvæmt bráðabirgðaútreikningum og hugsanlega fimm kílómetra langur, að sögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvár á Veðurstofunni.

Kristín segir kviku krauma undir niðri og haldi þetta áfram með sama hætti sé líklegt að sig myndist ofan á þessum kvikugangi, áður en kvikan kemur upp á yfirborðið, komist hún þangað yfirhöfuð.

Hvort kom á undan, kvikan eða skjálftarnir?

Þótt skjálftavirknin hafi byrjað í síðustu viku var það ekki fyrr en í gær sem vísindamenn fengu áþreifanlegar upplýsingar um þróun þessa kvikugangs, sem gæti á endanum leitt til eldgoss. Óljóst er á þessari stundu hvað kom á undan; skjálftavirknin, sem hefði þá getað opnað fyrir berggang og kvikumyndun, eða berggangurinn, sem talinn er hafa myndast nærri Keili og Fagradalsfjalli, og gæti hafa leyst skjálftavirkni úr læðingi.

 „Mér finnst alveg líklegt að þessar fyrstu hreyfingar hafi verið tektónískar og hafi komið þessu af stað, en þetta er örugglega rannsóknarefni næstu ára,“ sagði Kristín í Kastljósi í kvöld og hallaðist frekar að því að jarðskjálftinn hefði hleypt öllu af stað en að hann hefði verið birtingarmynd berggangsins.