Rífur hjartað í tvennt að þurfa að hringja þetta símtal

Mynd: Aron Guðmundsson / Aðsend

Rífur hjartað í tvennt að þurfa að hringja þetta símtal

03.03.2021 - 09:26

Höfundar

Foreldrar Arons Guðmundssonar stjórnmálafræðings létust með nokkuð skömmu millibili, móðir hans eftir glímu við taugahrörnunarsjúkdóminn MND en faðir hans af slysförum nokkrum árum síðar. Aron hefði aldrei trúað því að annað áfall gæti dunið á eftir að hann missti móður sína. Hann segir mikilvægt að leyfa sér að finna fyrir sorg og að gráta stundum.

Aron Guðmundsson stjórnmálafræðingur og varaformaður MND-félagsins hefur síðustu mánuði unnið að hlaðvarpsþáttum um snjóflóðin í Súðavík. Þættirnir eru lokaverkefni hans í blaða- og fréttamennskunámi sem hann lýkur í sumar. Hann hlakkar til útskriftarinnar en finnur líka fyrir miklum trega yfir því að fólkið sem hefur staðið honum næst í áranna rás, móðir hans og faðir, geta ekki verið á staðnum til að fagna þessum áfanga með honum. Aron var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 þar sem hann sagði frá missinum og hvernig hann hefur lært að lifa með sorginni.

Ást við fyrstu sýn

Foreldrar hans, Ingibjörg og Guðmundur, voru aðeins 16 ára þegar þau kynntust. Guðmundur var frá Bolungavík en Ingibjörg frá Ísafirði. „Pabbi hefur sagt að frá því hann sá mömmu fyrst hafi það verið ást við fyrstu sýn,“ segir Aron. Þau byrjuðu fljótt að búa og eignuðust þrjá stráka, Aron er yngstur, fæddur 1994.

Lífið á Ísafirði, uppvöxtur Arons og æska hans, var mjög gott. Bræður hans segja að yngsti bróðirinn hafi verið mikið dekurdýr og Aron viðurkennir að það sé eitthvað til í því. Móðir hans starfaði sem grunnskólakennari en faðir hans var í ýmsum störfum, meðal annars hjá Eimskipi og Samskipum. „Það var líf og fjör. Mamma var stríðin og pabbi á móti, svo þetta var virkilega gott heimilislíf.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aron Guðmundsson - Aðsend
Aron var afar náinn báðum foreldrum sínum

Brotnaði niður við matarborðið

Aron er enn í dag að ganga í gegnum sorgarferli sem hófst árið 2013 þegar hann fékk þær fréttir að móðir hans væri með MND. „Ég man daginn vel þegar við bræðurnir fengum þessar fréttir, þetta var um páskana árið 2013. Við fórum í mat heima og okkur var tilkynnt um þetta,“ rifjar Aron upp. Honum varð fljótt ljóst að móðir hans væri alvarlega veik. „Ég brotnaði niður við matarborðið án þess að vita hvaða sjúkdómur þetta væri.“

MND er taugahrörnunarsjúkdómur sem leggst á taugar líkamans og lamar þær. Því fylgir máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni og hálsi og að lokum alger lömun. Vitsmunalegur styrkur helst þó óskaddaður í flestum tilvikum. Það hefur ekki fundist nein lækning er Aron kýs að lýsa honum ekki sem ólæknandi. „Það er til lækning en það á bara eftir að finna hana,“ segir hann.

Tók veikindunum af æðruleysi

Áfallið var mikið. Fram að þessu segist Aron hafa talið sig og sína vera ósnertanleg og að ekkert gæti hent þau. En raunveruleikinn reyndist annar. En fjölskyldan ákvað strax að reyna að fá sem allra mest út úr þeim tíma sem þau fengju saman. „Við tóku tímar þar sem við lifðum drauma okkar, létum þá rætast,“ segir hann. „Mamma tók þessu af miklu æðruleysi, ákvað að njóta hvers dags.“

Á þessum tíma var Aron að útskrifast úr menntaskóla og í stað þess að hefja strax háskólanám ákvað hann að vera heima á Ísafirði með foreldrum sínum. „Næstu ár urðu mjög erfið, við pabbi bjuggum með mömmu og tókum að okkur það hlutverk að hlúa að henni, ásamt aðstandendum í kringum okkur.“

Erfiðir en fallegir tímar

Það er misjafnt hvernig sjúkdómurinn leggst á fólk en í tilfelli móður Arons missti hún fljótt málið og átti svo erfitt með að nærast eðlilega svo hún fékk næringu í gegnum sondu. „Sem betur fer var tæknin komin á það stig að það voru komnir talgervlar,“ segir Aron sem þakkar fyrir að hafa áfram getað talað við móður sína, í gegnum talgervilinn Dóru. „Þessi Dóra er eins og önnur mamma. Hún hafði samskipti við mig í gegnum þessi ár.“

Því sjúkdómurinn, þó hann tæki allan mátt af móður hans, hafði ekki áhrif á heilastarfsemi. Hún var allan tímann með fullkomna meðvitund og minni. „Hún sagði mér að lifa mínu lífi og ég lét hana vita að það myndi ég gera. En þetta var verkefnið mitt á þessum tíma. Þótt það hafi verið erfiðir tímar voru þeir samt fallegir,“ segir Aron. „Ég tengdist mömmu betur á þessum tíma en nokkru sinni áður. Það eru stundum erfiðir atburðir sem færa okkur nær hvert öðru.“

Reynslan kenndi fjölskyldunni að nýta hvern dag til hins ítrasta og Aron minnir sig á það. „Ég er reglulega minntur á að það er bara dagurinn í dag sem skiptir máli en það hefur að sama skapi reynst erfitt fyrir mig að koma þeirri hugsun í kollinn á mér. Ég á það til að fresta hlutum þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum þetta áfall.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aron Guðmundsson - Aðsend
Eftir greiningu móður sinnar hljóp Aron í maraþoni til styrktar MND-samtökunum, nú er hann varaformaður félagsins.

Huggar sig við að hafa náð að kveðja og segjast elska hana

Móðir Arons lést á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hann man þann örlagaríka morgun eins og hann hafi gerst í gær. „Þetta var fyrsti dagurinn minn í sumarfríi, ég vann í Eimskip á þessum tíma og pabbi hafði varið nóttinni með henni. Ég ætlaði að sofa út og fara svo að hitta mömmu,“ segir hann. Á milli sjö og átta um morguninn fær hann símtalið frá föður sínum, um að móðir hans væri að kveðja. „Þannig að ég, ásamt fyrrverandi kærustunni minni, flýti mér út og ég hef ábyggilega brotið margar umferðarreglur á leiðinni. En því miður náði ég henni ekki, hún fór á meðan ég var á leiðinni,“ segir hann. „En ég get huggað mig við að daginn áður var ég hjá henni og endaði á að segjast elska hana og að ég ætlaði að hitta hana daginn eftir.“

Eftir sumarið 2015 skráði hann sig í stjórnmálafræði í Háskólanum. Faðir hans varð eftir á Ísafirði og honum þótti erfitt að geta ekki verið hjá honum. „Mér fannst það en ég hugsaði oft til hans og hafði reglulega samband, en hann var náttúrulega ekki einn. Auðvitað var þétt stuðningsnet í kringum hann, besta stuðningsnet sem nokkur getur hugsað sér,“ segir Aron .

Hann minnti sig á að foreldrar hans höfðu alltaf hvatt hann til að lifa lífi sínu. „Það má ekki stoppa þarna, eftir þessi áföll. Þú mátt ekki láta þetta hafa þau áhrif að þú hættir að lifa, þetta er frekar bara áminning um að þú þart að láta þína drauma rætast.“

Besta ákvörðun lífsins að hafa flutt aftur heim til pabba

Þegar hann hafði klárað stjórnmálafræðina fór hann aftur vestur til að skrifa BA-ritgerðina þar. Þá var honum boðið að taka sæti á Í-listanum og hann leit á það sem kjörið tækifæri til að láta á sér kveða og stuðla að velferð í sinni heimabyggð. „Ég flyt heim til pabba, sem núna er mín besta ákvörðun til þessa,“ segir Aron sem tók lista í bæjarstjórn. „Og ég er mjög þakklátur fyrir það traust sem ég fékk þá, að fá tækifæri til að starfa og vinna að hag bæjarbúa í sinni heimabyggð, það er mjög gaman.“

Það var gott að snúa aftur í gamla heimabæinn og að vera umkringdur náttúrufegurðinni þar á ný. „Ég elska fjöllin en viðurkenni að í kringum veikindi mömmu fannst mér þau stundum þjarma að mér. Þau geta verið yfirgnæfandi og myrkrið er meira út af fjöllunum. En ég elska þau samt,“ segir hann. „Ísafjörður og það umhverfi er draumastaður og það er paradís að alast þar upp.“

Feðgarnir urðu nánari en nokkru sinni fyrr

Faðir hans tók ákvörðun um að selja húsið og feðgarnir flytja í blokkaríbúð skammt frá þar sem þeir komu sér vel fyrir. Faðir hans var í fullu starfi hjá Vegagerðinni sem hentaði honum vel. „Hann hefur alltaf verið mikill tækjakall og naut sín í starfi með þessum frábæru félögum. Hlakkaði til að fara í vinnuna á hverjum degi, fór hálftíma áður en hann átti að mæta bara til að ná kaffibollanum,“ segir Aron.

Í þessari sambúð urðu þeir feðgar nánari en nokkru sinni fyrr. „Á þessum tímapunkti verður hann meira en pabbi minn, hann verður vinur minn. Af því við erum búin að ganga í gegnum ákveðna reynslu saman og tengjumst á dýpra leveli en áður,“ segir Aron. Þeir deildu miklum áhuga á tónlist og spiluðu á gítar saman heima. „Það voru frábærir tímar.“

Lögreglumaður og prestur yfirgefa húsið

Það var á heiðríkum og björtum degi í júní árið 2019 sem Aron fór út að hlaupa þar sem hann var að æfa sig fyrir maraþon um sumarið. Þar sem hann er að ganga aftur heim eftir vel heppnað hlaup þegar hann sér lögreglubíl staðnæmast fyrir utan heimilið sitt og fljótlega stigu út úr blokkinni lögregluþjónn og prestur. Aron áttaði sig á að eitthvað væri ekki með felldu. „Á þessum tímapunkti sekkur hjartað, ég kveiki strax á því sem er að gerast.“

Gleymir aldrei þessum degi

Mennirnir tveir spurðu hvort þeir mættu koma upp í íbúðina og ræða við Aron. „Við bjuggum á þriðju hæð og þetta er lengsta ganga sem ég hef tekið,“ segir Aron. Þegar hann var sestur niður í íbúð sinni er honum tjáð að faðir hans hafi látist af slysförum í vinnunni fyrr um daginn. „Það er skrýtið með svona daga að þeir sitja í manni. Ég mun aldrei gleyma þessu, heldur muna það sekúndu fyrir sekúndu,“ segir Aron.

Annað risastórt áfall á skömmum tíma var orðið að veruleika. „Eins og ég sagði þá fannst manni maður ósnertanlegur þegar mamma greinist. En eftir að hún deyr heldur maður að það sé komið gott, þú ert aldrei að fara að lenda í einhverju öðru,“ segir hann. „En það getur allt gerst og það sannaðist á þessum degi.“

Rífur hjartað í tvennt að hringja í bræður sína

Aron hringdi í einn bróður sinn og sagði honum fréttirnar en gat ekki hringt í elsta bróður sinn. „Ég gat bara tekið ákveðið magn af símtölum. Að hringja sem yngsti bróðir í eldri bræður sína, og þurfa að tjá þeim að enn eitt áfallið sé skollið á, það er eitthvað sem rífur hjartað í tvennt.“

Hann hringdi í besta vin föður síns sem þá var staddur á Spáni. „Ég hringdi og tjáði honum að pabbi væri fallinn frá og hann er margreyndur lögreglumaður með alls konar reynslu á bakinu. Hefur reynst okkur svo vel og hann náði einhvern veginn að róa mig þrátt fyrir þessar rugluðu aðstæður.“

Talaði mikið og var glaður daginn áður en hann lést

Faðir hans hafði verið brattur áður en hann lést, og það var létt yfir honum. „Ég man að hann var svo glaður. Við fórum til Bolungarvíkur og hittum systur hans, og komum við á leiðinni hjá ömmu og afa á Vík,“ rifjar Aron upp um daginn áður en faðir hans lést. „Við keyrðum á blæjubílnum hans, hann átti bláan Benz-sportbíl sem hægt var að taka þakið af. Ég man hvað hann var opinn þennan dag og þetta kvöld. Talaði mikið og var glaður.“ Aron bauð föður sínum góða nótt eftir skemmtilegan dag en sá hann ekki aftur á lífi.

Mistök að sökkva sér í skýrsluna um slysið

Aron fór fram á að fá að lesa skýrsluna um slysið því hann vildi skilja og fá svör en eftir á að hyggja segist hann hafa gert sér óleik með því að kynna sér svo ítarlega það sem fór úrskeiðis. „Það myndast aðstæður í hausnum á mér sem í raun koma mér fyrir á staðnum þar sem ég horfi á þetta gerast og er á svæðinu. Það átti eftir að leika mig grátt þessa mánuði á eftir,“ segir Aron. Honum tókst með aðstoð sálfræðinga að vinna sig burt frá þeim hugsunum sem hann dvelur ekki í lengur.

Faðir Arons var verulega þakklátur fyrir barnabörnin og naut sín vel í afahlutverkinu. „Hann var frábær afi og þetta var það sem gaf lífinu lit eftir svona mikinn missi. Og það var á þessum tímapunkti, rétt áður en hann deyr, sem maður sá á honum að hann væri að komast á réttu brautina. Gleðin var orðin miklu meiri og hann var farinn að sjá ljósið í lífinu. Þess vegna er þetta sárara.“

Leyfir sér að syrgja og gráta

Þegar sorgin lætur á sér kræla finnst Aroni gott að fara út að ganga eða hlaupa, en hann segir líka mikilvægt að leyfa sorginni að koma. Hann reynir ekki að bæla hana eða forðast. „Það er ástæða fyrir því að þú finnur allt í einu þörf fyrir að gráta og ég kem ekki í veg fyrir þá tilfinningu. Ef ég finn að ég þarf að gráta þá græt ég. Ef ég finn að ég þarf að syrgja þá syrgi ég. Það er eðlilegur hluti af sorgarferlinu.“

Og honum finnst gott að tala um missinn, minningarnar og sorgina. „Það gerir mér frekar gott að geta tjáð mig um þessa reynslu og ef ég get hjálpað einhverjum er það algjör bónus.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Aron í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.

 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Sumir æskuvinanna hafa lent í fangelsi

Menningarefni

„Held ég hafi aldrei verið svona hrædd á ævinni“

Menningarefni

„Ég fylltist andstyggð á sjálfum mér“