Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Riðan á Vatnshóli mikið áfall

03.03.2021 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Gunnarsson - RÚV
Talsmaður sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu segir það mikið áfall að riða hafi nú greinst á bæ í sýslunni. Bærinn er í Vatnsneshólfi þar sem riða er þekkt, en næsta varnarhólf er riðufrítt. Ristahlið á varnargirðingu milli hólfanna var fjarlægt í haust.

Það var á bænum Vatnshóli í Húnaþingi vestra sem riðan greindist. Bærinn er í Vatnsneshólfi en í því varnarhólfi greindist riða síðast árið 2015 og var það eina tilfellið undanfarin tuttugu ár.

Áfall að riða geti komið upp aftur og aftur

„Þetta er náttúrulega mikið áfall,“ segir Ólafur Benediktsson, Formaður félags sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu. „Sérstaklega fyrir fólkið sem býr þarna og samfélagið allt - já og sauðfjárbændur bara almennt í landinu að þetta skuli koma upp aftur og aftur.“

Allt á þessu búi til mikillar fyrirmyndar

Vatnshóll er með stærri sauðfjárbúum á þessu svæði með ríflega 920 fjár. Ólafur segir allt á búinu til mikillar fyrirmyndar. „Það er ennþá meira högg að þetta skuli koma upp á bæ þar sem fólk hefur virkilega lagt sig fram við að hafa hlutina í lagi.“

Ekkert ristahlið á varnargirðingu milli hólfanna 

Vatnsneshólf telst ekki hreint gagnvart riðu, en næsta varnarhólf er Miðfjarðarhólf og þar hefur aldrei komið upp riða. Ristahlið á þjóðvegi eitt á varnargirðingu milli hólfanna var fjarlægt í haust og því er nú opið milli hólfanna. „Ég ætla rétt að vona að Matvælastofnun og Vegagerðin komi hliðinu upp, ja sem fyrst allavega. Þannig að það verði allavega hægt að hindra samgang vestur áfram, þannig að féð komist ekki þangað.“