Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Parton bólusett með bóluefninu sem hún fjármagnaði

03.03.2021 - 07:43
epa04301421 US singer Dolly Parton performs on stage at the Lanxess Arena in Cologne, Germany, 05 July 2014, during her 'Blue Smoke World Tour'.  EPA/HENNING KAISER
 Mynd: EPA
Kántrísöngkonan ástsæla Dolly Parton fékk í gær bólusetningu gegn COVID-19 með bóluefni Moderna. Söngkonan á nokkurn þátt í þróun bóluefnisins því hún lagði fram hvorki meira né minna en eina milljón bandaríkjadali, upphæð sem samsvarar rúmum hundrað og tuttugu milljónum íslenskra króna til þróunarinnar.

Við bólusetninguna í Vanderbilt háskólanum í Nashville í Tennessee ríki í Bandaríkjunum í gær söng Parton breytta útgáfu af lagi sínu Jolene, og bað fólk um að hika ekki við að fara í bólusetningu því það gæti reynst dýrkeypt. 

Söngkonan er orðin 75 ára gömul og sagði í gær að hún hafi beðið með eftirvæntingu í þó nokkra stund eftir bólusetningunni. Þá sagði hún að hún væri orðin nógu gömul til að röðin væri komin að henni og að hún væri líka nógu snjöll til að þiggja bólusetningu, og hvatti aðra til að nýta sér tækifærið og gera það sama. 

Parton sagði að hún hafi ekki viljað fá bólusetninguna fyrr þó að hún hafi tekið þátt í að fjármagna þróunina því hún hafi alls ekki viljað fara fram fyrir röðina. Hér má sjá Dolly Parton syngja breytta útgáfu af Jolene í tilefni af bólusetningunni: