Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Páfi ætlar til Íraks þrátt fyrir ólgu

03.03.2021 - 09:08
Erlent · Asía · Írak · Páfagarður · Evrópa · Trúarbrögð
epa09044239 A handout picture provided by the Vatican Media shows Pope Francis reciting the prayer of the Angelus from the window of his study overlooking Saint Peter?s Square, Vatican City, 28 February 2021 (issued 01 March 2021).  EPA-EFE/VATICAN MEDIA HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Frans páfi. Mynd: EPA-EFE - VATICAN MEDIA
Frans páfi heldur til Íraks á föstudag, en það verður hans fyrsta ferð til útlanda síðan kórónuveirufaraldurinn braust út og fyrsta ferð páfa til Íraks.

Páfi verður fjóra daga í Írak og ætlar að sækja heim kristna söfnuði í landinu. Hann ætlar einnig að hitta veraldlega leiðtoga og trúarlega, þar á meðal Ali Sistani erkiklerk, æðsta leiðtoga síta í Írak, sem búsettur er í Najaf. 

Sistani, sem er níræður, nýtur mikillar virðingar í heimalandi sínu. Hann sést sjaldan opinberlega og tekur sjaldan á móti gestum.

Ólga hefur farið vaxandi í Írak eftir að flugskeytaárásir á bækistöðvar fjölþjóðaliðsins í landinu hófust á ný í síðasta mánuði. Að minnsta kosti einn lét lífið þegar flugskeytum var skotið á herflugvöll í Írak í morgun, þar sem fjölþjóðalið undir forystu Bandaríkjamanna hefur aðstöðu.

Árásin á Ain al-Assad flugvöllinn var  gerð laust fyrir klukkan hálf átta að staðartíma. Haft er eftir fulltrúum Írakshers að skeytin hafi verið af gerðinni Arash, smíðuð í Íran.

Tugir árása voru gerðar á bækistöðvar fjölþjóðaliðsins í Írak á síðasta ári og hafa stjórnvöld í Bagdad og Bandaríkjunum kennt um vopnuðum sveitum sem hliðhollar eru Íran.

Hlé varð á í október, en þetta er fjórða árásin á bækistöðvar fjölþjóðaliðsins í Írak á undanförnum þremur vikum. Bandaríkjaher svaraði með loftárás á vígi samtakanna Kataeb Hezbollah á landamærum Íraks og Sýrlands í síðustu viku, en samtökin njóta stuðnings frá Íran.