Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Öryggisráðið fundar um Mjanmar á föstudag

03.03.2021 - 04:31
epa09045878 Demonstrators flee as tear gas is launched by security forces during a protest against the military coup in Yangon, Myanmar, 02 March 2021. Foreign ministers of the Association of Southeast Asian Nations (ASEAN) are expected to hold a special meeting on the Myanmar political crisis on 02 March, amid rising tension in the country between anti-coup protesters and security forces.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fulltrúi Breta í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna kallar eftir því að ráðið komi saman á föstudag til að ræða valdarán hersins í Mjanmar og það ástand sem skapast hefur í landinu í framhaldi af því. AFP-fréttastofan greinir frá. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar leggja Bretar til að fundurinn verði lokaður og hefjist klukkan 15.00 að íslenskum tíma.

Fyrri fundur ráðsins um valdaránið, sem haldinn var 2. febrúar, daginn eftir að það var framið, var líka lokaður. Í framhaldi af þeim fundi lýsti Öryggisráðið „þungum áhyggjum“ af valdaráninu og í drögum að bókun var kallað eftir frelsun allra sem handtekin voru í aðgerðum hersins.

Í frétt AFP kemur einnig fram að fulltrúi Kína í Öryggisráðinu hafi upplýst útsendara fréttastofunnar um að „almennt samkomulag ríkti um það meðal fulltrúa í Öryggisráðinu [...] að halda skyldi fund um málefni Mjanmar innan skamms.“

Herforingjastjórnin heldur sínu blóðuga striki

Herforingjastjórnin hefur ekki látið þungar áhyggjur Öryggisráðsins aftra sér frá því að ganga fram af mikilli hörku gegn mótmælendum, sem streyma daglega út á götur allra helstu borga landsins, þúsundum saman til að krefjast afsagnar herforingjanna, frelsunar Aung San Suu Kyi og annarra pólitískra leiðtoga og endurreisnar lýðræðis í landinu.

Næstliðinn sunnudagur var blóðugasti mótmæladagurinn til þessa. Þann dag skutu her- og lögreglumenn minnst 18 mótmælendur til bana.