Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metfjöldi COVID-19 dauðsfalla í Brasilíu

03.03.2021 - 01:40
epaselect epa09046391 Workers bury a covid-19 victim at the Nossa Senhora Aparecida Cemetery, in Manaus, Amazonas, Brazil, 01 March 2021 (issued 02 March). Brazil is experiencing the worst moment of the coronavirus pandemic, with an explosion of cases and income that has led health authorities to demand more restriction measures throughout the country, while the President, Jair Bolsonaro, insists on denying the seriousness of a disease that already leaves more than 250,000 dead.  EPA-EFE/RAPHAEL ALVES
 Mynd: EPA-EFE - EFE
1.641 dauðsfall var rakið til COVID-19 í Brasilíu síðasta sólarhringinn, fleiri en nokkru sinni á einum sólarhring. Brasilísk heilbrigðisyfirvöld greindu frá þessu í kvöld. Brasilía er í flokki þeirra landa sem hvað verst hafa orðið úti í heimsfaraldri kórónaveirunnar og ekkert lát virðist á hörmungunum sem pestin veldur þar í landi. Staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 eru orðin rúmlega 257.000 talsins, fleiri en í nokkru landi öðru utan Bandaríkjanna.

 

Staðfest smit eru um 10.65 milljónir talsins, og eru hvergi fleiri nema í Bandaríkjunum og á Indlandi. Smitum hefur fjölgað í Brasilíu upp á síðkastið og í síðustu viku fjölgaði nýsmitum líka á heimsvísu, eftir að hafa fækkað sex vikur í röð.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, greindi frá því í gær að í liðinni viku hefði nýsmitum fjölgað í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Suðaustur-Asíu og í Austurlöndum nær. Hann sagði það valda vonbrigðum, en ekki koma á óvart. Að hluta til skýrist þetta af tilslökunum í sóttvarnaaðgerðum, nýjum og smitnæmari afbrigðum veirunnar og minni aðgát almennings.