
Meint brot Jóns Baldvins talið refsivert á Spáni
Landsréttur telur að sú háttsemi sem Jóni Baldvin er gefið að sök í ákæru saksóknara sé refsiverð samkvæmt spænskum lögum.
Landsréttur bendir á að þótt þýðing á spænska lagaákvæðinu, sem saksóknari lagði fram, sé ekki hnökralaus verði af orðalagi þess ráðið að það taki til kynferðislegrar áreitni eins og hún er hugsuð í íslenskum hegningarlögum.
Samkvæmt lögskýringagögnum felist það meðal annars í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum siðum og samskiptaháttum.
Þetta er í annað sinn sem Landsréttur sendir málið aftur í hérað. Héraðsdómur vísaði ákærunni frá dómi í byrjun árs þar sem talið væri að spænska lagagreinin um kynferðislega áreitni væri mjög frábrugðin íslenska lagaákvæðinu.
Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi þar sem meira en fjórar vikur hefðu liðið frá því að munnlegur málflutningur fór fram þar til úrskurður var kveðinn upp. Því þyrfti að taka frávísunarúrskurðinn fyrir að nýju.
Héraðsdómur komst að sömu niðurstöðu, verulegur vafi væri á því að sú háttsemi sem Jón Baldvin er ákærður fyrir teldist refsiverð samkvæmt spænskum lögum. Því er Landsréttur ósammála og hefur því gert héraðsdómi að taka málið til efnismeðferðar.