Filippseyjar eru á meðal þeirra ríkja sem veðja á bóluefnið CoronaVac frá kínverska lyfjaframleiðandanum Sinovac Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínversk stjórnvöld heita því að gefa hálfan milljarð skammta af kínverskum bóluefnum gegn COVID-19 til fátækari ríkja, sem eiga erfitt með að verða sér úti um nauðsynlegt magn bóluefna. Stjórnvöld í Peking hafa þegar upplýst að þau veiti 53 ríkjum það sem þau kalla „bóluefnaaðstoð" og flytji að auki út bóluefni til 27 landa.
Þrenns konar bóluefni gegn COVID-19 sem framleidd eru í Kína hafa farið í dreifingu og notkun víða um heim. Þetta eru CoronaVac frá lyfjaframleiðandanum Sinovac og tvenns konar bóluefni frá kínverska ríkislyfjafyrirtækinu Sinopharm. Virkni allra þessara bóluefna er talin um eða yfir 70 prósentum.