Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Haukar stöðvuðu sigurgöngu Keflavíkur

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Haukar stöðvuðu sigurgöngu Keflavíkur

03.03.2021 - 22:14
Haukar urðu í kvöld fyrsta liðið til að leggja Keflavík að velli í Dominosdeild kvenna. Framlengingu þurfti til.

Haukar voru í 3. sæti deildarinnar fyrir leikinn en tóku fljótlega forystuna í Keflavík í kvöld. Haukar voru yfir í leikhléi, 36-27. Munurinn var kominn niður í 7 stig eftir þriðja leikhlutann en í þeim fjórða jafnaði Keflavík og var allt í járnum. 66-66 stóð að loknum fjórum leikhlutum og því var framlengt.

Mikil spenna var í framlengingunni. Haukar komust í 75-73 þegar 40 sekúndur voru eftir. Keflavík minnkaði muninn í eitt stig af vítalínunni og eftir skrefadóm á Hauka fékk Keflavík boltann aftur og gat tryggt sér sigurinn. Lokaskot þeirra rataði þó ekki í körfuna og Haukar unnu 75-74. Eftir níu sigra í fyrstu níu leikjunum varð Keflavík að játa sig sigrað í fyrsta sinn í vetur.

Önnur úrslit í kvöld urðu þau að Valur lagði Snæfell í Stykkishólmi, 81-69, Fjölnir lagði KR sannfærandi í Vesturbænum, 96-67, og Skallagrímur rúllaði yfir Breiðablik, 80-48.

Valur situr því nú í efsta sæti deildarinnar með 20 stig, tveimur meira en Keflavík en Valur hefur spilað tveimur leikjum meira. Haukar eru með 16 stig og Fjölnir með 16. Skallagrímur er svo með 12, Breiðablik 6, Snæfell 4 og KR rekur lestina með 2 stig.