Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forgangsröðun efnaðra ríkja „sorgleg staðreynd“

03.03.2021 - 09:18
Mynd: EPA-EFE / EPA
Í fyrradag urðu tímamót í baráttunni við COVID-19, við fyrstu bólusetningarnar á vegum COVAX-samstarfsins. COVAX-samstarfið er alþjóðlegt samstarf um sanngjarna dreifingu bóluefna við COVID-19 til fátækari ríkja heims. Engu að síður er ljóst að ríkari þjóðir heims hafa hamstrað bóluefni, á meðan hin fátæku sitja á hakanum

Rætt var við Geir Gunnlaugsson, fyrrverandi landlækni, í fréttaþættinum Hádeginu á Rás 1 í gær, um COVAX-stamstarfið og helstu áskoranir Afríkuríkja í baráttuni við COVID-19, nú þegar bólusetning er á næstu grösum. Geir starfaði um árabil í Gíneu-Bissá og fylgist vel með baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar í Afríku. 

Stóra vandamálið er hvernig bóluefninu verður dreift

Í Abidjan á Fílabeinsströndinni voru fyrstu heilbrigðisstarfsmennirnir bólusettir við COVID-19. Þetta var fyrsta bólusetningin á vegum COVAX-samstarfsins, en markmið þess er að senda tæpa tvo milljarða skammta af bóluefnum til 92 fátækra ríkja fyrir árslok. En hversu raunhæft er að þetta markmið náist? 

„Ég ætla að leyfa mér að vera þokkalega bjartsýnn varðandi COVAX-samstarfið og það náist að koma þessum tveimur milljörðum skammta til skila. Stóra vandamálið er hins vegar dreifingin á þessum bóluefnum og markmið COVAX er að dreifa því til þessara 92 forgangslanda, fátækari landa. Það á eftir að koma í ljós hvernig það mun ganga. Þetta er háð því hvaða bóluefni eru í boði og hver er framleiðslugeta þessara mismunandi bóluefna,“ segir Geir.

Auk þess getur þetta verið háð því hvað einstök lönd eiga hugsanlega eftir að gera til að ná í bóluefni fyrir sína þjóð. Geir nefnir þar sérstaklega bóluefni sem koma frá Kína, Rússlandi og Indlandi, bóluefni sem gætu komið ofan á COVAX-samstarfið. Þetta eru bóluefni sem hafa ekki farið í gegnum sama ferli og til dæmis bóluefni Pfizer, þau eru ekki komin eins langt. Staðan getur því breyst mikið á skömmum tíma. En vandinn snýst ekki einvörðungu um að koma bóluefninu til fátækari ríkja.

Lítil reynsla af því að bólusetja fullorðna

„Hvernig ætlum við að bólusetja þessar þjóðir? Við vitum að Afríka hefur fengið COVID til sín. Veiran er þarna, vandinn er að ná bólusetningu til fjöldans, og hverjir það eru sem munu fá bóluefni?“ spyr Geir. 

Geir nefnir til dæmis að nýlega hafi Senegal fengið bóluefni frá Kína og þeir hafi byrjað á því að bólusetja ráðherra og ráðuneytisstarfsmenn. Svo kemur heilbrigðisstarfsfólk og áhættuhópar. Forgangsröðunin þar er nokkuð skýr. Senegalar ætli þó hins vegar að gefa 10 þúsund skammta af bóluefninu til nágrannaríkjanna Gíneu Bissáu og Gambíu. En það er annar vandi sem Geir leggur áherslu á.

„Þrátt fyrir gríðarlega reynslu í mörgum fátækum löndum við að bólusetja er lítil reynsla í því að bólusetja fullorðið fólk. Samtímis vitum við það að þau sem hafa lent í ebólu-faraldrinum, voru að beita bólusetningum við mjög erfiðar aðstæður. Með bóluefni sem kröfðust mikillar kælingar. Þeim tókst það, en það var með það að markmiði að einangra ebólu. En almenn bólusetning til fullorðinna í fátækum löndum sunnan Sahara, það er lítil reynsla á því,“ segir Geir.

Svo eru einhverjir sem vilja heldur ekki láta bólusetja sig. Geir var gestur í fréttaskýringaþættinum Heimskviðum fyrir réttu ári, þegar kórónuveiran var að byrja að láta á sér kræla í Afríku. Margir óttuðust að veiran myndi leika álfuna grátt, enda heilbrigðisþjónusta þar víða bágborin. Geir segir að svartsýnustu spár hafi blessunarlega ekki ræst.

epa09044686 A nurse prepares the first injection of the Covid-19 vaccine, at a vaccination center in Abidjan, Ivory Coast, 01 March 2021. Ivory Coast is one of the first countries to benefit from vaccines funded by the Covax system aimed at providing anti-Covid vaccines to 20 per cent of the population of nearly 200 participating countries and territories this year.  EPA-EFE/LEGNAN KOULA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá bólusetningamiðstöð á Fílabeinsströndinni.

„Sorgleg staðreynd“

En útbreiðsla COVID-19 og bóluefnakapphlaup síðustu mánaða hefur sannarlega varpað æ skýrara ljósi á misskiptingu auðs í heiminum. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofunarinnar, sagði í vikunni að þó það væri gott að sjá að bólusetning væri hafin í Ghana og á Fílabeinsströndinni, væri það hryggilegt að bólusetning heilbrigðisstarfsfólks í fátækari ríkjum væri loks að hefjast núna.

Þá sagði Ghebreyesus að það væri hryggilegt að sum ríki haldi áfram að láta bólusetningu yngra og heilbrigðara fólks meðal eigin borgara, fólks sem er í lítilli hættu á að veikjast alvarlega, hafa forgang á heilbrigðisstarfsfólk og eldri borgara í fátækari ríkjum.

Undir þetta tekur Geir Gunnlaugsson. Nánar er rætt við hann í spilaranum hér að ofan. 

Hádegið er daglegur fréttaskýringaþáttur í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur. Fjallað er um innlend og erlend fréttamál, menningu, íþróttir og daglegt líf. Fréttaskýringar, samtöl og umræður um það sem er efst á baugi.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður