Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Barn talið hafa smitast af COVID í móðurkviði

03.03.2021 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Barn sem fæddist í Svíþjóð í fyrra er talið hafa smitast af COVID-19 í móðurkviði. Smitið var greint þegar barnið var tveggja daga gamalt. Samkvæmt nýrri rannsókn sem hefur verið birt í vísindatímaritinu British Journal of Obstetrics & Gynecology, þá er talið útilokað að barnið hafi smitast eftir fæðingu.

Barnið var fyrirburi og var tekið með keisaraskurði. Það þurfti aðstoð við öndun eftir fæðingu og dvaldi því fjarri móður sinni fyrst um sinn. Við rannsókn á fylgju móðurinnar kom í ljós að þar mátti greina COVID-smit, að því er sænska ríkisútvarpið, SVT, hefur eftir lækninum Mahreen Zaigham á háskólasjúkrahúsinu á Skáni í Malmö. Sami stofn veirunnar greindist hjá barninu, móðurinni og í fylgjunni, sem þykir renna stoðum undir þá kenningu að það hafi smitast í móðurkviði.

Barnið fékk væga COVID sýkingu en hefur braggast vel og myndað mótefni gegn veirunni. Starfsfólk sem annaðist það á vökudeild smitaðist ekki. Þetta er fyrsta tilfellið af þessum toga sem vitað er um í Svíþjóð. Í frétt sænska ríkisútvarpsins segir að vitað sé um nokkur slík tilfelli á heimsvísu.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir