Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Grafa upp og brenna milljónir minkahræja

02.03.2021 - 04:44
epa08807895 Killed minks are buried at Karup Military Airport in Jutland, Denmark, 08 November 2020. To prevent infection from spreading from the animals, the animals are encapsulated in layers of calcium. So far, almost 1, 9 million mink have been killed. All mink in Denmark are killed in connection with Covid-19, due to fear of mutation in coronavirus.  EPA-EFE/Bo Amstrup  DENMARK OUT
 Mynd: EPA
Dönsk yfirvöld hafa boðið út uppgröft og brennslu á milljónum minkahræja sem urðuð voru í fyrrahaust eftir að öllum minkum landsins var lógað af ótta við að þeir smituðu fólk af COVID-19. Það er Matvælastofnun Danmerkur sem býður verkið út. Samkvæmt útboðsgögnum á að grafa upp rúm 13.000 tonn af minkahræjum sem urðuð voru á landi danska hersins Jótlandi í nóvember í fyrra. Í framhaldinu skal svo brenna hræin og ganga þannig frá urðunarstaðnum að hvorki verði lýti af né smithætta.

Verkið á að hefjast í lok maí og því skal lokið ekki síðar en um miðjan júlí.

Allt að 17 milljónum minka lógað

Dönsk stjórnvöld ákváðu í fyrrahaust að lóga skyldi öllum minkum á dönskum minkabúum, samtals á bilinu 15 - 17 milljónum minka, hvort sem þeir voru smitaðir af COVID-19 eða ekki. Ástæðan var sú að smit hafði borist í minka í nokkrum búum, og tekið stökkbreytingu.

Óttast var að hið stökkbreytta afbrigði gæti borist í starfsfólk minkabúa og þaðan út í samfélagið, og að bóluefnin sem verið var að þróa myndu mögulega ekki gagnast gegn þessu stökkbreytta afbrigði.

Brennslustöðvar höfðu ekki undan

Þar sem ráðist var í að lóga langflestum skepnunum á skömmum tíma í haust höfðu brennslustöðvar ekki undan. Því var gripið til þess ráðs að urða um fimm milljónir minka á æfingasvæðum hersins í Karup og Holstebro. Það leið þó ekki á löngu áður en rotnandi hræin risu úr of grunnum gröfum sínum vegna gasmyndunar.