
Eigingirni ríkustu ríkja heims hryggir Ghebreyesus
Hægt að draga úr mestu hörmungunum
Michael Ryan, framkvæmdastjóri neyðaraðgerða stofnunarinnar, segir að í ljósi þess að COVID-19 tilfellum fer nú fjölgandi á ný, eftir að hafa fækkað sex vikur í röð, sé ljóst að veiran er ekkert á förum. „Það væri afar ótímabært, og að mínu mati óraunhæft, að halda að við verðum laus við þessa veru í árslok," sagði Ryan á blaðamannafundi í gær.
Með skynsamlegum aðgerðum og sameginlegu átaki telur hann þó mögulegt að fækka mjög alvarlegum veikindum og dauðsföllum og binda þannig enda á mestu hörmungarnar af völdum þessarar skæðu pestar.
Fjölgun nýsmita vonbrigði en ekki óvænt
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri stofnunarinnar, benti á að í liðinni viku hefði nýsmitum fjölgað í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Suðaustur-Asíu og í Austurlöndum nær. Það valdi vonbrigðum, en komi þó ekki á óvart. Að hluta til skýrist þetta af tilslökunum í sóttvarnaaðgerðum, nýjum og smitnæmari afbrigðum veirunnar og minni aðgát almennings.
„Bóluefni munu bjarga mannslífum, en það væru mistök ef ríki heims treystu alfarið á þau. Almennar aðgerðir í sóttvarnar- og lýðheilsumálum verði áfram grunnurinn að öllum viðbrögðum.
Fagnar COVAX-bólusetningum en harmar forgangsröðun ríkra landa
Tedros hefur sagst vilja sjá bólusetningu hefjast í öllum ríkjum heims áður en 100 dagar eru liðnir af þessu ári, sem þýðir að það eru 40 dagar til stefnu. Hann fagnaði í gær fréttum af því að fyrstu bólusetningarnar í COVAX-samstarfinu hefðu farið fram í Gana og á Fílabeinsströndinni og sagði það jákvætt að bólusetning heilbrigðisstarfsfólk í fátækari ríkjum heims væri nú loksins að hefjast.
„En það er hryggilegt að þetta sé að gerast nær þremur mánuðum eftir að sum af ríkustu löndum heims hófu bólusetningu. Og það er hryggilegt að sum ríki haldi áfram að setja láta bólusetningu yngra og heilbrigðara fólks meðal eigin borgara, fólk sem er í lítilli hættu á að veikjast alvarlega, hafa forgang á heilbrigðisstarfsfólk og eldri borgara í fátækari ríkjum.“