Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Allar áætlanir yfirfarnar fumlaust og af kostgæfni

Tjaldbúðir Björgunarsveitarinnar Þorbjörns settar upp að kvöldi 1. mars í æfingaskyni.
 Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn
Næstum 30 félagar í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík slógu upp tjaldbúðum í bænum í gærkvöldi. Tjöldin eru hluti hluti af búnaði björgunarsveitarinnar og almannavarna sem byggður hefur verið upp í mörg ár.

Tjöldin sem voru sett upp í æfingarskyni eru upplýst og upphituð og nýtanleg sem vettvangsstjórnstöð eða skjól fyrir fórnarlömb hópslysa, svo eitthvað sé nefnt. 

Ákveðið var að blása til útkallsæfingar vegna jarðhræringanna undanfarið, að því er fram kemur á Facebook-síðu sveitarinnar. Bogi Adolfsson formaður Þorbjarnar segir í samtali við fréttastofu að æfingar af þessu tagi séu frábær leið til að skerpa á fólki og búnaði. 

Tímasetning æfingarinnar er heppileg, en undirbúningur hófst í janúar, löngu áður en þessi kraftmikla jarðskjálftahrinan hófst að sögn Boga. „Það tekur um 20 til 30 mínútur að setja tjöldin upp og þau eru mjög þægilegur búnaður.“ 

„Allur þessi búnaður krefst þess að hann sé í topp standi hverju sinni og að kunnátta sé til staðar til þess að nota hann.“ Nú er að sögn Boga unnið af kostgæfni við að yfirfara allar áætlanir og skipulag.

Alltaf sé brýnt að undirbúa sig vendilega svo hægt sé að sjá mögulega vankanta og sníða þá af. Bogi segir að allt sé unnið fumlaust og yfirvegað. 

Skammt er síðan Þorbjörn keypti vara-aflstöð svo hús sveitarinnar verði starfhæft í rafmagnsleysi. Húsið er nýtt sem stjórnstöð komi upp almannavarnarástand í Grindavík.

Á laugardaginn var gerð tilraun með því að slá út rafmagni í húsinu og keyra það á varaflstöðinni. Allar minni rafstöðvar voru gangsettar og farið yfir tölvur og annan rafbúnað í stjórnstöðinni. Einnig var svokölluð hópslysakerra björgunarsveitarinnar yfirfarin. 

Slysarvarnardeildin Þorbjörn er nýorðin níræð en hún var stofnuð 2. nóvember árið 1930.