
Tilbúinn í kosningar í Armeníu
Þetta kom fram þegar Pashinyan ávarpaði stuðningsmenn sína á Lýðveldistorginu í miðborg Jerevan, höfuðborgar Armeníu, í dag. Hann sagði að ef stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi féllust á kosningar þá yrðu kosningar. Hann væri tilbúinn að gefa þeim kost á að sigra sig. Best væri að sjá hvaða flokkum landsmenn væru reiðubúnir að treysta.
Pashinyan varð forsætisráðherra árið 2018 eftir mikil mótmæli sem hann stýrði gegn spillingu í stjórnkerfinu. Stjórnarandstæðingar hafa beitt hann miklum þrýstingi eftir að hann játaði Armena sigraða í stríði við Asera um héraðið Nagorno-Karabakh til að koma í veg fyrir enn meira mannfall í liði þeirra. Fyrir vikið urðu þeir að láta af hendi nokkurt landsvæði í héraðinu, sem mæltist einstaklega illa fyrir. Nikol Pashinyan játaði í dag að hann hefði gert ýmis mistök í stríðinu, en það væri einungis þjóðin sem gæti ákveðið hver yrði við stjórnvölinn.
Nokkur þúsund stjórnarandstæðingar komu saman í dag utan við þinghúsið í Jerevan. Hópur þeirra hefur tjaldað þar og ætlar ekki að hverfa á brott fyrr en Pashinyan og stjórn hans láta af völdum.