Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Spillingarlögregluna skortir fé til rannsókna

01.03.2021 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr myndbandi
Namibísku spillingarlögregluna, ACC, skortir töluvert fé ef hún á að geta sinnt öllum sínum verkefnum, sagði Paulus Noa, yfirmaður hennar, í viðtali við dagblaðið The Namibian. Hann sagði meðal annars að nýjar upplýsingar meinta spillingu í tengslum við Samherja verði ekki rannsakaðar nema fjárveitingar spillingarlögreglunnar verði auknar.

„Ef þeim [þingmönnum] er alvara um að berjast gegn spillingu í Namibíu verða þeir að gera ACC kleift að rannsaka spillingarmál með því að tryggja stofnuninni nægar fjárveitingar,“ sagði Noa við The Nambian í frétt sem birtist í dag. Hann sagði að ef þingið tryggði ekki nægar fjárveitingar þá væri engin leið fyrir ACC að sinna umfangsmiklum rannsóknum sem skyldi. 

Spillingarlögreglan fékk 61 milljón namibískra dollara, andvirði 520 milljóna króna, á þessu starfsári. Noa segir að hún þurfi 30 milljónir dollara, andvirði tæplega 260 milljóna króna, til að geta haldið áfram öllum rannsóknum með þeim hætti sem umfang þeirra krefst. Noa hefur óskað eftir hærri fjárveitingum á næsta starfsári við fjármálaráðuneytið. Það hefur ekki birt tillögur sínar en talsmaður ráðuneytisins sagði við The Namibian að tekið yrði rúmt tillit til óska ACC.

Rannsakendur í betur launuð störf

Það er ekki aðeins fjárskortur sem gerir spillingarlögreglunni erfitt fyrir við rannsóknir. Hún á líka í vandræðum með að halda í rannsakendur sínar, að því er kemur fram í fréttinni. Einn helsti rannsakandi ACC, sem hefur farið með meinta spillingu innan stjórnarflokksins Swabo, hætti nýlega til að hefja störf hjá namibískum banka. Fleiri hafa hætt síðustu ár.

Noa sagði að eftir breytingar sem forsætisráðuneytið gerði á skipulagi spillingarlögreglunnar eigi hún erfitt með að verjast ásókn annarra stofnana í starfsmenn sína. Það er vegna þess að þær geta boðið betri laun en spillingarlögreglan.