Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ráðuneytið fær skammir í hattinn vegna máls Haraldar

01.03.2021 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Umboðsmaður Alþingis telur að bréfasendingar Haraldar Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóra, til Björns Jóns Bragasonar og Sigurðar K. Kolbeinssonar hafi ekki verið í samræmi við þær skyldur sem hvíldu á embætti ríkislögreglustjóra og viðbrögð dómsmálaráðuneytisins við þessum bréfaskriftum ekki viðunandi. Umboðsmaður telur jafnframt að ráðuneytið hefði átt að bregðast sérstaklega við seinni bréfunum sem Haraldur sendi enda hefði ráðuneytið þá þegar gert athugasemdir við framgöngu hans.

Fram kemur í álitinu að umboðsmaður taki ekki afstöðu til þess hvort ráðuneytið hefði átt að áminna Harald vegna framgöngu sinnar þar sem hann hafi nú látið af störfum.

Engum dylst þó, þegar álitið er lesið, að umboðsmaður telur að ráðuneytið hefði átt að skoða hvort áminna hefði átt þáverandi ríkislögreglustjóra. Hann telur til að mynda rétt að ítreka sjónarmið sín um þær kröfur sem gerðar eru til ríkislögreglustjóra og að ráðuneytið taki framvegis mið af þeim hvernig stjórnunarúrræðum á borð við áminningu verði beitt. 

Hann bendir jafnframt á að áminning vegna tiltekinnar framgöngu gefi starfsmönnum og almenningi til kynna hvaða augum æðra stjórnvald lítur á framgöngu embættismanns í ljósi reglna og viðmiðana sem ber að fylgja í opinberri starfsemi.

Málið á sér langan aðdraganda.  Björn Jón skrifaði bók um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans sem kom út  fyrir fimm árum og Sigurður K. Kolbeinsson stýrði þætti um viðskipti á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.

Haraldur lét af störfum í lok árs 2019. Hann verður á launum hjá ríkinu til ársins 2022.  Biðlaunagreiðslur til hans taka gildi í júlí á þessu ári til loka ársins. Um miðjan janúar á næsta ári verður síðan það orlof sem hann telst hafa unnið sér inn á þessu tímabili greitt.  Kostnaður við starfslokasamninginn nemur um 57 milljónum. 

Í bók Björns Jóns kom fram að Valtýr Sigurðsson, þáverandi ríkissaksóknari, hefði farið hörðum orðum um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, í minnisblaði sem hann lagði fram á fundi í innanríkisráðuneytinu árið 2011. Þar hafi hann sagt að efnahagsbrotadeild „hafi um árabil skort faglega yfirstjórn og metnað“. Valtýr ítrekaði þetta svo í þætti Sigurðar

Haraldur var ákaflega ósáttur við þessa umfjöllun. Hann skrifaði þeim báðum bréf á bréfsefni ríkislögreglustjóra þar sem hann sakaði þá um að bera ábyrgð á ólögmætri meingerð vegna umfjöllunar um efnahagsbrotadeild embættisins.

Björn Jón og Sigurður kvörtuðu báðir til umboðsmanns Alþingis sem krafði dómsmálaráðuneytið um skýringar. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að bréfasendingar Haraldar hefðu verið ámælisverð og til þess fallin að rýra traust á embætti ríkislögreglustjóra. 

Fjölmiðlamennirnir töldu þessa niðurstöðu ráðuneytisins ekki fullnægjandi.  Framkoma hans hefði verið það alvarleg að hann hefði átt að vera áminntur og þeir leituðu því aftur til umboðsmanns sem óskaði eftir svörum frá ráðuneytinu í september fyrir tveimur árum.

Umboðsmaður vildi einnig fá að vita hvort Haraldur hefði mátt skrifa afsökunarbeiðni sína til Sigurðar og Björns Jóns á bréfsefni ríkislögreglustjóra.