Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nomadland og The Crown sigurvegarar Golden Globe

epa09043850 Handout image released by the Hollywood Foreign Press Association showing Sean Penn presenting during the 78th annual Golden Globe Awards ceremony at the Beverly Hilton Hotel, in Beverly Hills, California, USA, 28 February 2021.  EPA-EFE/HFPA / HANDOUT EDITORIAL USE ONLY, NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - HOLLYWOOD FOREIGN PRESS ASSOCIAT

Nomadland og The Crown sigurvegarar Golden Globe

01.03.2021 - 04:33

Höfundar

Kvikmyndin Nomadland í leikstjórn Chloe Zhao var valin sú besta meðal drama-mynda á Golden Globe verðlaunahátíðinni í nótt. Zhao var jafnframt verðlaunuð fyrir leikstjórn sína. The Crown hlaut fern verðlaun í flokki sjónvarpsþátta. 

Sacha Baron Cohen hlaut verðlaun fyrir túlkun sína á sköpunarverki sínu Borat í myndinni Borat Subsequent Moviefilm. Myndin var einnig valin sú besta í flokki söngva- og gamanmynda. Hann var einnig tilnefndur fyrir leik sinn í aukahlutverki í kvikmyndinni The Trial of the Chicago 7, en þar varð hann að lúta í lægra haldi fyrir Daniel Kaluuya, sem hlaut styttuna fyrir myndina Judas and the Black Messiah.

Fjórar styttur til bresku krúnunnar

Þættirnir um bresku konungsfjölskylduna, The Crown, nutu mikillar velgengni. Þættirnir voru valdir bestu dramaþættir, Josh O'Connor hlaut verðlaun fyrir túlkun sína á Karli Bretaprins, Emma Corrin var valin besta leikkonan í hlutverki Díönu heitinnar prinsessu af Wales, og Gillian Anderson þótti skara fram úr í aukahlutverki með túlkun sinni á Margaret Thatcher.

Skák-fíkni-dramað The Queen's Gambit var valin besta staka sjónvarpsþáttaröðin eða sjónvarpsmynd. Aðalleikona þáttanna, Anya Taylor-Joy, hlaut verðlaun sem besta leikkona í sama flokki. Gamanþættirnir Schitt's Creek hlutu einnig tvenn verðlaun.

Bandarísk mynd valin sú besta á erlendu máli

Val erlendu blaðamannanna í Hollywood á bestu mynd á erlendu tungumáli vakti nokkra furðu. Verðlaunin hlaut bandaríska myndin Minari, en í henni er bæði töluð kóreska og enska. Innan við helmingur talaðs máls í myndinni er á ensku, og myndin því gjaldgeng í þeim flokki.

Hátíðin í ár var með mjög óhefðbundnu sniði. Afskaplega fáir voru í sjálfum hátíðarsalnum, og voru kynnarnir, þær Amy Poehler og Tina Fey, hvor á sinni ströndinni.