Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mikil verðhækkun á minkaskinnum

01.03.2021 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjötíu og níu prósenta hækkun varð á verði fyrir minkaskinn á uppboði sem nú er nýlokið í Kaupmannahöfn. Talsmaður íslenskra loðdýrabænda segir þetta gefa minkabændum vind í seglin, enda sé mikil eftirspurn eftir skinnum.

Algert hrun varð í sölu á minkaskinnum í kjölfar heimsfaraldursins og setti það allar áætlanir íslenskra minkabænda úr skorðum, því í byrjun síðasta árs leit úr fyrir að salan væri að glæðast. En nú virðast breytingar fram undan því mikil hækkun varð á uppboði í Kaupmannahöfn í síðustu viku. 

„Seldist allt sem boðið var til sölu“

„Það voru boðnar til sölu rúmlega tvær milljónir skinna og það seldist allt sem boðið var til sölu," segir Einar Eðvald Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda. Þarna segir hann vera að ganga eftir þær væntingar sem menn höfðu um að ástandið myndi batna þegar faraldurinn gengi yfir. „Núna bara hungrar markaðinn í skinn. Það hefur víða verið vetur í heiminum og góða sala í búðum í Asíulöndum núna síðustu vikur."

Bjartsýnn á að verð haldi áfram að hækka

Þrátt fyrir þessa miklu verðhækkun núna sé skinnaverð enn undir framleiðslukostnaði. Verðið á síðasta ári hafi verið nánast helmingi of lágt. „En það að fá núna 79 prósenta hækkun á einu uppboði og síðan þær fregnir sem við höfum frá kaupendum og úr smásölunni og frá framleiðendum, þær gefa ekkert annað til kynna en að verðið haldi áfram að hækka. Og ég er verulega bjartsýnn á að það fari yfir framleiðslukostnað á næsta uppboði og að þetta verði bara mjög gott á komandi mánuðum."

Endurskoða ákvörðun um að hætta búskap 

Það eru tíu minkabú eftir í landinu og Einar segir að þessi verðhækkun núna hafi orðið til þess að bændur, sem voru að hugsa um að hætta búskap, hafi endurskoðað það. „Það voru bændur hér á landi sem voru að velta fyrir sér að fara ekki í minkinn núna í byrjun mars ef þetta hefði ekki gengið vel núna á þessu uppboði. Þannig að þetta var algerlega orðinn síðasti séns að fá vind í seglin.“