Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lýðræðissinnar ákærðir í Hong Kong

01.03.2021 - 05:14
epa09043861 Pro-democracy activist Avery Ng holds a banner in support of arrested fellow activists outside the West Kowloon Court in Hong Kong, China, 01 March 2021. Police have charged 47 pro-democracy activists with conspiracy to subvert state powers under the National Security Law. The group of arrestees comprises most of the 55 people arrested in January 2021 under the national security law over primary elections held in July 2020.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
47 Hong Kong-búar voru í gær ákærðir vegna brota á nýjum öryggislögum kínverskra stjórnvalda. Allir eru þeir kærðir fyirr samsæri um niðurrifsstarfsemi. Þeir eiga yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi verði þeir dæmdir.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmdi ákærurnar í gærkvöld og kallaði eftir því að fólkinu verði tafarlaust sleppt.

Lögreglan í Hong Kong tók 55 þekkta lýðræðissinna í Hong Kong í síðasta mánuði. Allir tóku þeir þátt í óopinberu prófkjöri lýðræðissinna í fyrra, til þess að finna sterkustu frambjóðendurna fyrir kosningar í Hong Kong. Lýðræðissinnar hafa hlotið meiri stuðning í Hong Kong eftir mótmælin 2019 og herferð kínverskra yfirvalda gegn þeim. Síðla árs 2019 hlutu þeir yfirgnæfandi meirihluta í sveitastjórnarkosningum.

Guardian hefur eftir öryggismálaráðherra Hong Kong, John Lee, að þau sem voru handtekin hafi ætlað að lama stjórnkerfið með því að vinna kosningarnar og koma í veg fyrir lagasetningar. 

Sverji Kommúnistaflokknum hollustueið

Kosningunum í Hong Kong var frestað um ár, vegna kórónuveirufaraldursins. Síðan þá hafa stjórnvöld í Peking og Hong Kong eflt herferð sína gegn lýðræðissinnum og kynnt til sögunnar fjölda nýrra reglna sem gera lýðræðissinnum erfiðara um vik að bjóða sig fram. Í síðustu viku var tilkynnt að allir stjórnmálamenn og frambjóðendur verði að sverja stjórn kínverska Kommúnistaflokksins hollustueið og sverja að þeir vinni ekki gegn stjórnvöldum. Geri menn það ekki eru þeir ókjörgengir. Yfirvöld segja það tryggja að aðeins föðurlandsvinir geti stýrt Hong Kong.