
Lýðræðissinnar ákærðir í Hong Kong
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmdi ákærurnar í gærkvöld og kallaði eftir því að fólkinu verði tafarlaust sleppt.
We condemn the detention of and charges filed against pan-democratic candidates in Hong Kong's elections and call for their immediate release. Political participation and freedom of expression should not be crimes. The U.S. stands with the people of Hong Kong.
— Secretary Antony Blinken (@SecBlinken) March 1, 2021
Lögreglan í Hong Kong tók 55 þekkta lýðræðissinna í Hong Kong í síðasta mánuði. Allir tóku þeir þátt í óopinberu prófkjöri lýðræðissinna í fyrra, til þess að finna sterkustu frambjóðendurna fyrir kosningar í Hong Kong. Lýðræðissinnar hafa hlotið meiri stuðning í Hong Kong eftir mótmælin 2019 og herferð kínverskra yfirvalda gegn þeim. Síðla árs 2019 hlutu þeir yfirgnæfandi meirihluta í sveitastjórnarkosningum.
Guardian hefur eftir öryggismálaráðherra Hong Kong, John Lee, að þau sem voru handtekin hafi ætlað að lama stjórnkerfið með því að vinna kosningarnar og koma í veg fyrir lagasetningar.
Sverji Kommúnistaflokknum hollustueið
Kosningunum í Hong Kong var frestað um ár, vegna kórónuveirufaraldursins. Síðan þá hafa stjórnvöld í Peking og Hong Kong eflt herferð sína gegn lýðræðissinnum og kynnt til sögunnar fjölda nýrra reglna sem gera lýðræðissinnum erfiðara um vik að bjóða sig fram. Í síðustu viku var tilkynnt að allir stjórnmálamenn og frambjóðendur verði að sverja stjórn kínverska Kommúnistaflokksins hollustueið og sverja að þeir vinni ekki gegn stjórnvöldum. Geri menn það ekki eru þeir ókjörgengir. Yfirvöld segja það tryggja að aðeins föðurlandsvinir geti stýrt Hong Kong.