Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Einum sleppt í Rauðagerðismáli - var handtekinn fyrstur

01.03.2021 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Karlmanni frá Litháen hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi og úrskurðaður í 8 daga farbann í tengslum við rannsókn lögreglu á morðinu í Rauðagerði. Samkvæmt heimildum fréttastofu var maðurinn sá fyrsti af mörgum sem handteknir hafa verið. Gæsluvarðhald yfir öðrum sakborningum í málinu rennur út á morgun og miðvikudag. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort óskað verði áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir þeim.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að gæsluvarðhaldið yfir manninum, sem er frá Litháen, hafi átt að renna út á miðvikudag. 

Alls hafa tólf réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglu. Sex sitja nú í gæsluvarðhaldi, meðal annars einn Íslendingur á fimmtudagsaldri. Gæsluvarðhaldið yfir honum rennur út á morgun og yfir hinum fimm á miðvikudag.  Þá eru nú þrír í farbanni.

Sem fyrr heldur lögreglan spilunum þétt að sér enda er rannsókn málsins flókin og mjög umfangsmikil.  Samkvæmt heimildum fréttastofu snýr hún meðal annars að mögulegu peningaþvætti og fjársvikum auk morðsins.  Fjöldi vitna hefur verið kallaður til skýrslutöku.