Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dagur segir ábyrgðarhluta að rýma allt höfuðborgarsvæði

Mynd: RÚV / RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins segir það ábyrgðarhluta að ætla sér að rýma allt höfuðborgarsvæðið. Áríðandi sé þó að áætlun um slíkt sé til.

Dagur var gestur morgunútvarps Rásar tvö í morgun og í máli hans kom fram að í raun væri afar ólíklegt að upp komi þær aðstæður sem kalli á allsherjarrýmingu. Ef kæmi til rýmingar myndi hún snerta afmörkuð svæði. 

„Langlanglíklegast er um að ræða viðburði sem hafa áhrif á afmarkaða þætti höfuðborgarsvæðisins. Við erum þá með viðbúnað, fjöldahjálparstöðvar og skipulag til að flytja fólk á milli svæða. 

Dagur segir fyrstu regluna vera þá að valda ekki skaða, almannavarnaáætlananir byggi á heilbrigðri skynsemi og ábyrgð. Undirbúningur og allar ákvarðanir séu tekin samkvæmt öllum bestu upplýsingum sérfræðinga. 

Almannavarnahugsunin snúi að því að undirbúa fólk undir það sem gæti gerst. Hann segir alltaf þurfa að svara þeirri spurningu hvort verið sé að forða fólki frá meiri hættu en verið er að setja það í með því að rýma.

Merkilegt sé að þéttasta byggðin í elsta hluta Reykjavíkur, sem reis áður en reglur voru mjög hertar, sé fjærst upptökum skjálftanna. Rétt eins og það hafi verið skipulagt. Að því gefnu að hús séu eðlilega byggð og reglum samkvæmt eigi þau að standast jarðskjálftana.

Hann segir að fólk eigi ekki að hlaupa út úr húsum við jarðskjálfta og ekki inn í hús sé það utandyra. Dagur rifjar upp að allsherjarrýmingum hafa helst verið beitt á stríðstímum þegar forðast þurfti mikla hættu. Mjög ólíklegt sé að það sem er að gerast nú kalli á slík viðbrögð.

„Þótt eldstöðvar séu í kringum höfuðborgarsvæðið er í engum tilfellum líklegt að hraunstraumar renni ínn í miðja byggð en mögulegt að þeir nái jaðri byggða,“ segir Dagur.

Hann upplýsti jafnframt að á almannavarnarfundi á föstudag hafi komið fram að hættumat frá sérfræðingum Veðurstofunnar sé væntanlegt síðar á þessu ári.

„Flóttaleiðir skipta máli og við munum í almannavarnaástandi nýta þá innviði sem þarf hverju sinni. Það er þó ágætt að fara ekki fram úr sér og gera fólk óþarflega hrætt.“

Aðgerðastjórnir fundi reglulega og færustu vísindamenn liggi yfir þessu og aðgerðarstjórnir funda reglulega. Í almannavarnaástandi þurfi að taka skynsamlegar ákvarðanir og af yfirvegun.

„Ef engin væri rýmingaráætlunin væri ólíklegt að einhver hlypi til og skipaði rýmingu höfuðborgarsvæðið enda myndi skapast af því öngþveiti og hætta í sjálfu sér.“