Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Veitingamenn fara almennt eftir sóttvarnarreglum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsmenn veitingastaða í miðborginni standa sig yfirleitt vel þegar kemur að því að framfylgja gildandi sóttvarnarreglum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sótti nokkra veitingastaði í miðborginni heim í gærkvöldi. Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að kannað var hvort rekstrarleyfi væru gild.

Lögregla þurfti að leiðbeina starfsmönnum í einhverjum tilfellum, meðal annars varðandi lokunartíma, sem á að vera klukkan 22:00.

Eins þurfti að benda einhverjum á hvenær gestum að yfirgefa veitingastaðina sem er klukkan 23:00, og að þjóna þurfi gestum til borðs.

Lögregla segir starfsmenn veitingastaða almennt vel hafa tekið heimsóknum og tóku öllum ábendingum vel.

Allnokkur fjöldi fólks var  í miðbænum og mynduðust stundum hópar utan við veitingastaði. Þó hafi ekki verið farið yfir leyfileg fjöldatakmörk.

Slys varð á veitingahúsi í miðborginni skömmu fyrir klukkan sjö í gærkvöldi þegar kona datt í stiga og meiddist á höfði.

Hún var flutt með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar en ekki er vitað frekar um meiðsli hennar. 

Kona var handtekin fyrir að ráðast að dyraverði við veitingastað í miðborginni á ellefta tímanum í gærkvöldi. Alls eru 86 mál eru skráð í dagbók lögreglu frá fimm í gærdag til fimm í nótt og átta manns gista fangageymslur lögreglu.

Lögreglan rannsakar nú atvik sem varð í sundlaug í úthverfi borgarinnar þegar sundlaugargestur týndi lykli að fataskápnum sínum. Öll föt, sími og fjármunir voru horfin úr skápnum en fötin fundust síðar í öðrum skáp.

Minnst 16 mál á höfuðborgarsvæðinu eru vegna hávaða frá heimilum, mestmegnis vegna háværra samkvæma.

 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV