Lögreglan á Norðurlandi eystra lokaði í gærkvöld tveimur veitingahúsum á Akureyri. Öðru þeirra var lokað vegna útrunnins rekstrarleyfis og hinu var lokað vegna brots á sóttvarnarlögum.
Samkvæmt núgildandi reglum verða gestir veitingastaða að yfirgefa staðinn í síðasta lagi klukkan 23:00. Á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að enn hafi verið að þjóna til borðs um klukkan 23:15 og um 50 viðskiptavinir inni á veitingastaðnum.
Þá segir lögreglan að nokkuð af fólki hafi verið í bænum og hún hafi sinnt ölvunar- og hávaðaútköllum fram undir morgun.
Lögreglan greinir einnig frá því að gafl hafi fokið af stóru verksmiðjuhúsnæði á Siglufirði. Þar gekk á með talsverðum vindhviðum í gærkvöld. Lögreglan aðstoðaði björgunarsveit við að festa gaflinn aftur niður.