Bæði Leicester og Arsenal spiluðu í Evrópudeildinni á fimmtudaginn og sást þá vel hversu mismunandi áherslur þjálfarar liðanna leggja í þá keppni. Brendan Rodgers, þjálfari Leicester, hvíldi nokkra lykilleikmenn gegn Slavia Prag þegar liðið datt úr leik á fimmtudaginn og gat því stillt upp sínu sterkasta liði í dag. Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, leggur hins vegar mikla áherslu á Evrópudeildina og stillti upp sínu sterkasta liði gegn Benfica í vikunni. Hann þurfti því að hvíla nokkra lykilleikmenn í dag og þeir Bukayo Saka, Marton Odergaard, Hector Bellerin, Gabriel og Pierre-Emerick Aubameyang byrjuðu allir á bekknum í dag.
Það tók Leicester aðeins 6 mínútur að skora fyrsta mark leiksins. Youri Tielemans átti þá fínan sprett að marki Arsenal og enginn varnarmaður gerði nokkra tilraun til að stöðva fór hans áður en hann skoraði auðveldlega fram hjá Bernd Leno í marki Arsenal. Stór spurningamerki sett við varnarleik Arsenal í þessu marki.
Sex mínútum eftir mark Tielemans var hann aftur á ferðinni en nú hinum megin á vellinum þegar hann felldi Nicolas Pepe innan teigs og Arsenal fékk því víti. Myndbandsdómarinn tók sér góðan tíma í að fara yfir brotið og að lokum var dómnum breytt í aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Á 39. mínútu var komið að jöfnunarmarki Arsenal. Willian tók aukaspyrnu og varnarmenn Leicester gleymdu sér í varnarleiknum og David Luiz nánast alveg frían skalla til að skora.
Myndbandsdómgæslan kom aftur við sögu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Boltinn hrökk þá í hendi Wilfried Ndidi og eftir að Paul Tierney skoðaði atvikið sjálfur í myndbandsskjánum dæmdi hann víti. Alexandre Lacazette fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi og Arsenal því með forystu í hálfleik.
Arsenal byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og á 53. mínútu skoraði Nicolas Pepe þriðja mark Arsenal eftir skemmtilega skyndisókn. Í kjölfarið róaðist leikurinn talsvert og mörkin urðu ekki fleiri. Sigur Arsenal heldur lífi í Evrópudraumum þeirra en að sama skapi eru þetta dýrmæt stig í súginn í baráttu Leicester um Meistaradeildarsæti.
Markalaust í Lundúnum
Í Lundúnum tók Crystal Palace á móti Fulham en bæði lið unnu leiki sína í síðustu umferð. Leikurinn fór afar rólega af stað og liðin sköpuðu sér fá færi. Í seinni hálfleik var þð sama upp á teningnum. Fátt markvert gerðist og leiknum lauk með markalausu jafntefli.