Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Selfoss með nauman sigur í háspennuleik gegn Stjörnunni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Selfoss með nauman sigur í háspennuleik gegn Stjörnunni

28.02.2021 - 21:07
Selfoss og Stjarnan buðu upp á mikla spennu í leik sínum í kvöld. Eftir æsispennandi lokamínútur tryggði Selfoss sér sigurinn með marki á lokasekúndum leiksins.

Lokaleikur dagsins í Olís deild karla í handbolta fór fram á Selfossi. Þar mættu heimamenn Stjörnunni. Þjálfari Stjörnunnar er Patrekur Jóhannesson en hann gerði heimamenn að Íslandsmeisturum fyrir tveimur árum. Staða liðanna í deildinni er svipuð en fyrir leik var Selfoss í sjötta sæti með 13 stig og Stjarnan í áttunda sæti með 12 stig.

Selfyssingar urðu fyrir áfalli í upphitun þegar að Guðmundur Hólmar meiddist og gat því ekki leikið með liðinu í kvöld. Það virtist þó ekki hafa mikil áhrif á liðið sem náði fljótt þriggja marka forystu eftir að hafa skorað fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins. Selfyssingar héldu forystunni út hálfleikinn en staðan í hálfleik var 16-14.

Gestirnir komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og skoruðu þrjú fyrstu mörkin og Stjarnan því komið yfir í fyrsta sinn frá því að staðan var 0-1 fyrir Stjörnuna. Við þetta vöknuðu þó heimamenn sem náðu aftur forystunni. Þegar að rúmlega fimm mínútur voru til leiksloka tóku Selfyssingar leikhlé en þá hafði Stjarnan minnkað muninn í eitt mark. Í kjölfarið náði Selfoss tveggja marka forystu en hún dugði ekki lengi því skömmu síðar jafnaði Stjarnan og staðan var 27-27 þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka. Stjarnan jafnaði aftur í stöðunni 28-28 og aðeins 35 sekúndur eftir. Selfoss geystist í sókn og Ragnar Jóhannsson kom þeim einu marki yfir 29-28. Tíminn sem eftir lifði leiks dugði Stjörnunni ekki og sigurinn var því Selfyssingar. 

Ragnar Jóhansson var markahæstur hjá heimamönnum með sjö mörk og þar á eftir var Hergeir Grímsson með sex mörk. Vilius Rasimas átti góðan leik í markinu en hann varði 16 skot. Hjá Stjörnunni var Starri Friðriksson markahæstur með sjö mörk og Tandri Már Konráðsson var með fimm mörk. Adam Thorstensen varði 14 skot í markinu hjá Stjörnunni.-