Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fastafulltrúi Mjanmars hjá SÞ rekinn af herstjórninni

28.02.2021 - 02:09
In this image taken from video by UNTV, Myanmar Ambassador to the United Nations Kyaw Moe Tun flashes the three-fingered salute, a gesture of defiance done by anti-coup protesters in Myanmar, at the end of his speech before the U.N. General Assembly at the United Nations Friday, Feb. 27 , 2021. Myanmar’s U.N. ambassador strongly opposed the military coup in his country and appealed for the “strongest possible action from the international community” to immediately restore democracy in a dramatic speech to the U.N. General Assembly Friday that drew loud applause from many diplomats in the 193-nation global body. (UNTV via AP)
 Mynd: AP
Fastafulltrúi Mjanmars hjá Sameinuðu þjóðunum, Kyaw Moe Tun, var rekinn í dag af herstjórninni fyrir að óska eftir aðstoð við að koma henni frá völdum. Greint var frá brottvikningu hans í ríkissjónvarpi Mjanmars. Þar var hann sakaður um að hafa svikið landið og væri ekki talsmaður ríkisins, auk þess sem hann hafi misnotað vald sitt og skyldur sem fastafulltrúi.

Herstjórninni var áfram mótmælt í dag. Tugir voru handteknir og kona varð fyrir skoti í borginni Monwya. Fregnir af líðan hennar eru misvísandi, samkvæmt heimildum Guardian lét hún lífið, en Reuters hefur eftir sjúkraflutningamanni að hún hafi verið flutt á sjúkrahús.

Kyaw Moe Tun biðlaði til alþjóðasamfélagsins á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær. Hann vill að gripið verði til allra nauðsynlegra ráða gegn herstjórninni til að endurreisa lýðræðið í Mjanmar. „Við þurfum hörðustu mögulegu aðgerðir frá alþjóðasamfélaginu til að binda enda á valdarán hersins, til að stöðva þvingunaraðgerðir gegn saklausu fólki, til að koma ríkisvöldum aftur til fólksins og til að endurreisa lýðræðið," hefur fréttastofa BBC eftir honum. 

Öryggissveitir hafa hert aðgerðir sínar gegn mótmælendum. Þrír fjölmiðlamenn voru handteknir í dag, þeirra á meðal ljósmyndari AP fréttastofunnar. Alls hafa yfir 770 verið handteknir og settir í gæsluvarðhald síðan herinn rændi völdum, að sögn alþjóðasamtaka sem fylgjast með aðstæðum pólitískra fanga.

Herinn tók völdin í Mjanmar 1. febrúar, skömmu áður en nýkjörið þing átti að koma saman í fyrsta sinn. Þjóðfylking Aung San Suu Kyi vann stórsigur og hreinan meirihluta í kosningum í nóvember síðastliðnum. Herinn viðurkenndi ekki úrslitin og taldi brögð í tafli. Suu Kyi og mörg flokkssystkina hennar voru handtekin í valdaráninu, og sitja enn inni. Lögmaður hennar tjáði Reuters að hún hafi verið flutt á ótilgreindan stað, og hann hafi ekki fengið að tala við hana.

Rétt rúmur áratugur er síðan herinn lét af völdum í landinu. Þingkosningarnar í nóvember voru aðrar frjálsu kosningarnar sem haldnar voru þar.