Börnunum fannst erfitt að sjá mömmu líða illa

Mynd: Kristinn Ingvarsson / HÍ

Börnunum fannst erfitt að sjá mömmu líða illa

28.02.2021 - 09:00

Höfundar

„Að vera svona veikur í marga mánuði eftir að vera fullfrískur, það er bara svakalegt,“ segir Steinunn Gestsdóttir aðstoðarrektor hjá Háskóla Íslands og prófessor í sálfræði. Hún veiktist illa af COVID 19 í haust og glímir enn við eftirköst en er risin á fætur eftir margra mánaða rúmlegu. Steinunn kíkti í Fram og til baka á Rás 2 þar sem hún taldi upp fimm fyrirmyndir sem hafa haft áhrif á líf hennar.

Steinunn Gestsdóttir aðstoðarrektor hjá Háskóla Íslands og prófessor í sálfræði hefur ekki kippt sér mikið upp við jarðskjálftahrininu sem riðið hefur yfir landið, en hundurinn hennar fer alveg á taugum í hvert sinn sem jörð nötrar. „Hún húkir við útidyrnar og bara skelfur,“ segir Steinunn.

Er enn að byggja sig upp andlega og líkamlega

Steinunn smitaðist af COVID-19 og varð alvarlega veik. Nú sex mánuðum síðar er hún fyrst að komast á fætur en hún glímir enn við eftirköst sjúkdómsins. „Að vera svona veikur í marga mánuði og rúmliggjandi eftir að vera fullfrískur, það er bara svakalegt,“ segir hún. „En það góða er að maður gerir ráð fyrir að þetta sé eitthvað sem gengur yfir, en það tekur tíma. Ég er að vinna í því bæði andlega og líkamlega að byggja mig upp.“

Jarðskjálftar veita tækifæri til að skipta um umræðuefni

Hún segir óvissuna í kringum veikindin og áhrif þeirra enn óþægilega. Hún viti enn ekki hver langtímaáhrifin eru og hve langan tíma það taki hana í viðbót að byggja sig upp og ná aftur fyrri styrk. Steinunn hefur brugðið á það ráð að horfa fram hjá stöðugum fréttaflutningi af faraldrinum og hlýðir til dæmis ekki á eða horfir á upplýsingafundi. „Ég er mjög ánægð með þessa jarðskjálfta, annað umræðuefni,“ segir hún glettin. „Núna er ég að reyna að lifa mínu lífi sem mest óháð COVID.“

Þoldi ekkert áreiti

Mánuðum saman var hún rúmföst og sá maðurinn hennar algjörlega um börnin og heimilið á meðan. „Eftir svona þrjá mánuði fór ég að geta legið frammi í stofu. Ég þoldi það en ég þoldi ekkert áreiti,“ rifjar hún upp. „Maður sá alveg að börnin höfðu áhyggjur og fannst erfitt að sjá mömmu sína líða illa. En það góða við að vera veikur á þessum tíma er að það voru allir heima, allt mjög rólegt og ekkert að gerast. Þannig að við tókum þennan tíma í að koma mér á lappir og það er að takast.“

 

epa08546493 (FILE) - United States Supreme Court Justice Ruth Bader Ginsburg attends an event at New York Law School in New York, New York, USA, 06 February 2018 (Reissued 14 July 2020). According to reports, Justice Ruth Bader Ginsburg was hospitalized for possible infection on 14 July 2020.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Steinunn segir mikinn sjónarsvipti að hæstaréttardómaranum Ruth Bader Ginsburg sem lést á síðasta ári.

Töff að berjast fyrir breytingum á kerfi innan kerfisins

Fyrsta fyrirmyndin sem hún nefnir er Ruth Bader Ginsburg heitin sem var önnur konan til að gegna stöðu hæstaréttardómara í Bandaríkjunum. Ginsburg lést í fyrra og Steinunn segir mikinn sjónarsvipti að svo sterkri baráttukonu. „Ástæðan fyrir því að ég nefni hana er að mér finnst fólk sem berst fyrir breytingum á einhverju kerfi, innan þess kerfis, eitthvað svo ofboðslega flott. Hún var að berjast innan þessa lagakerfis og þú getur ímyndað þér hvers konar viðmót hún hefur fengið í gegnum árin, bæði sem ein af fáum konum í Harvard og í öllum sínum störfum, og síðan í hæstarétti,“ segir Steinunn.

Hún segir okkur Íslendinga einnig eiga okkur slíkar fyrirmyndir í sterkum konum sem hafa rutt brautina, og nefnir meðal annars Jóhönnu Sigurðardóttur og Vigdísi Finnbogadóttur. „Þú getur rétt ímyndað þér hvers konar viðmót þær hafa fengið á sínum ferli. Til að halda það út þarf styrk.“

Fannst hún vera að hitta sálufélagann sinn

Önnur fyrirmynd sem hún nefnir er Richard Learner sem var leiðbeinandi hennar í doktorsnámi í Tufts-háskóla. „Ástæðan fyrir því að ég nefni hann er að þegar ég hitti hann í fyrsta sinn þá breytti það lífi mínu aðeins,“ segir hún. Steinunn hafði farið á fyrirlestur með honum nokkru áður og leið þá eins og hún væri að hitta sálufélagann sinn. Hún áttaði sig á því að þau væru algjörlega á sömu bylgjulengd og hún tengdi mikið við kenningar hans um farsælan þroska ungmenna. „Þetta var árið 2000 og á þeim tíma sneru rannsóknir um ungmenni að áhættuhegðun meira og minna. Það voru bara þunganir, fíkniefnaneysla og að hætta í skóla. Hann sagði þetta fullkomlega ófullnægjandi mynd af ungu fólki og ef við ætlum að styðja ungt fólk í að lifa heilbrigðu lífi þyrftum við að breyta þessari sýn.“

Tókst að klúðra viðtalinu

Hún ákvað því að sækja um doktorsnám hjá honum en segist hafa tekist að klúðra viðtalinu sem hún mætti allt of seint í. „Þá vorum við búin að búa í Boston í eitt ár. Ég var búin að finna hvar skólinn væri, þetta var svona klukkutíma akstur. Ég var með kort og allt á hreinu en fattaði ekki að það var þrumuveður og þá stöðvast hraðbrautirnar.“ Steinunn mætti því skömmustuleg á svæðið, sveitt og blaut eftir óveðrið, einum og hálfum tíma of seint. „Hver vill doktorsnema sem mætir ekki á réttum tíma?“ spyr hún. En Richard gaf henni séns og þau smullu algjörlega saman og eru enn vinir og samstarfsmenn í dag. „Ég fann mig í hans nálgun og við höfum alltaf verið mjög náin.“

Líkamsvirðingaraktívisti og þverflautuleikari

Þriðja fyrirmyndin er tónlistarkonan Lizzo sem skaut upp á stjörnuhimininn árið 2019 með smellum á borð við Truth hurts og Juice. „Hún er ofboðslega hæfileikarík tónlistarkona og menntaður þverflautuleikari,“ segir Steinunn. Lizzo hefur vakið athygli á líkamsvirðingu og málefnum kvenna og svartra sem dæmi en segir líka lýjandi að vera alltaf krafin um að vera talsmaður þeirra hópa sem hún tilheyrir þegar hún vill líka bara vera dæmd á verkum sínum en ekki hvernig hún lítur út.

Hlustar alltaf á Lizzo í sturtu

„Ástæðan fyrir því að mig langaði að nefna hana er að mér finnst hún svo ofboðslega skemmtileg og ég hlusta á hana á hverjum degi, á sama lagið þegar ég fer í sturtu,“ segir Steinunn. Áður en hún stígur undir bununa daglega setur hún á lagið Fitness með söngkonunni. „Lagið fjallar um líkamsvirðingu og heilbrigði og hún baunar á þá sem skipta sér af hennar holdarfari og hvernig hún lítur út. En það sem mér finnst svo flott er að vera rappari sem spilar á þverflautu og er að predika um líkamsvirðingu. Mér finnst hún alveg ofboðslega skemmtileg týpa.“

„Hann er með svo ofboðslega fallega lífssýn“

Fjórða fyrirmyndin er bróðir Steinunnar, Páll Gestsson verkfræðingur. „Mig langar að nefna hann því mér finnst hann hafa svo ofboðslega fallega lífssýn,“ segir Steinunn um bróður sinn sem hún lýsir sem mikilli fjallageit og ævintýramanni.

Hún segir hann alltaf leggja sig fram við að gera gagn gagnvart sínu fólki, samfélaginu og umhverfinu en á þann hátt sem honum finnst skemmtilegur sjálfum. „Það er aldrei eins og þetta sé kvöð heldur lífsstíll,“ segir Steinunn. „Á leið í vinnuna stoppar hann fyrir gamalli konu, svo hittir hann einhvern nágranna og þeir fara að tala um þetta og hitt og það enda á að þeir fara í vikuferð á hálendið að byggja brú. Hann tekur viku í að hjálpa dóttur minni að setja upp eldhúsinnréttingu í sinni fyrstu íbúð og það er alltaf eins og þetta sé það skemmtilegasta sem hann hefur gert.“

Bróðir Steinunnar, sem er fjórum árum eldri en hún, segir hún að reyni aldrei að þröngva lífssýn sinni og gildum upp á aðra. „Hann lifir sínu lífi en er á engan hátt að gagnrýna aðra eða að reyna að fá aðra til að fara sömu leið. Þannig að ég held a hann sé einn af þeim sem mun, þegar að því kemur, líta til baka og vera sáttur við hvernig hann hefur lifað sínu lífi.“

„Klukkutími sem breytti mér“

Fimmta fyrirmyndin er tasmaníski uppistandarinn og leikkonan Hannah Gadsby. Henni skaut upp á stjörnuhimininn árið 2018 þegar uppistand hennar Nanette var sýnt á Netflix. „Þetta er svona klukkutíma þáttur og þegar ég horfði á hann, hann breytti mér aðeins. Og það er sjaldan sem það gerist.“ Í uppistandinu lýsir Hannah því meðal annars hvernig það er að alast upp samkynhneigð og með einhverfu og ofbeldi sem hún hefur orðið fyrir, meðal annars þegar hún bjó á götunni.

Uppistandið hefur orð á sér fyrir að fá fólk í senn til að veltast um af hlátri en knýja marga líka til tára því sögur hennar eru átakanlegar. „Þetta er svo ótrúlega vel gert. Hún er að lýsa því hvernig það er að vera manneskja sem passar ekki inn í umhverfið,“ segir Steinunn. „Hún er alveg mögnuð. Og þó þeta hljómi ekki hlægilega er hún svakalega fyndin. Hún segir þessa sögu svo einlægt að þú gleymir stað og stund og hrífst með. Hún hafði rosaleg áhrif á mig.“

Helgaráform Steinunnar voru fyrst og fremst að hvíla sig og halda áfram að hlúa að sér eftir erfið veikindi en líka að sinna hundinum sem er að jafna sig eftir jarðskjálfta. „Við reynum að sinna honum. Hvíla mig og hreyfa hann,“ segir hún að lokum.

Felix Bergsson ræddi við Steinunni Gestsdóttur í Fram og til baka á Rás 2. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fengu sér ís saman eftir sögulega keppni

Fótbolti

Fegurðarsamkeppni grunnurinn að atvinnumannaferlinum

Innlent

Fílhraust í grunninn en óvinnufær lengi eftir COVID-19