Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tekur örskamma stund frá skjálfta til mælingar

27.02.2021 - 19:52
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Starfsfólk á Veðurstofu Íslands hafa haft í nægu að snúast síðustu daga að vinna úr jarðskjálftagögnum. Fréttastofa slóst í dag í för með Veðurstofunni og kannaði hvernig ferlið er frá því að skjálfti verður þar til endanleg mæling liggur fyrir.

Það viðraði ekki neitt sérstaklega vel þegar við slógumst í för með Bergi á Sandskeiði í dag til að kanna ástand á einum af um 85 jarðskjálftamælum á landinu. Það er óhætt að segja að það hafi verið álag á jarðskjálftamælum síðustu daga.

Hvernig virkar svona mælir?

„Hérna erum við með á milli okkar jarðskjálftamælinn sjálfann. Hann er ofan á þessum platta sem er beintengdur við bergið hérna undir. Þessi mælir nemu minnstu hreyfingar og skilar þeim inn í þetta tæki sem er hérna inni í skápnum, þetta hér. Þetta tæki setur mælamerkið á stafrænt form, hér er GPS-hattur sem tímasetur það nákvæmlega, svo fer það yfir í farsíma rotuter sem sendir það á Veðurstofuna,“

Þar taka náttúruvársérfræðingar Veðurstofunnar við þeim til greiningar og úrvinnslu.

„Við fáum bylgjugögnin beint inn til okkar og af stað fer forrit sem metur sjálfvirka stærð og staðsetningu. En það getur ýmislegt komið inn í sem gerir það að verkum að það er ekki alveg rétt, þetta er sirka staðsetning. Það sem við gerum er að fara yfir skjálftana handvirkt, skoða bylgjugögnin, meta þessar bylgjur sem heita P og S bylgjur og reikna út stærðina út frá því,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Í hrinum eins og þeirri sem nú stendur yfir ná sérfræðingar Veðurstofunnar ekki að yfirfara alla skjálfta, aðeins þá sem eru nokkuð stórir. 

„Mesti þröskuldurinn til að fá stærðina er þessi mannlega yfirferð, hún getur tekið hálfa mínútu, mínútu, kannski tvær. En svo er líka smá þröskuldur sem tekur fyrir forritið að búa til staðsetninguna,“ segir Salóme.

Salóme segir að það sé ekki hægt að meta stærð skjálfta út frá aðeins einum mæli. 

„Þú þarft alltaf að minnsta kosti þrjár stöðvar til að meta skjálftann, af því að staðsetning á skjálfta er metin út frá því hvað er mikill tímamismunur á P-bylgjunni og S-bylgjunni. Því lengri sem tímamunurinn er því fjær var skjálftinn frá stöðinni. Þannig að er þú ert með eina jarðskjálftastöð þá geturðu sagt, já, þessi sjálfti var í 18 km fjarlægð, en þú veist ekki í hvaða átt,“ segir Salóme.