Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Suðurafríska afbrigðið greinist í Kaupmannahöfn

27.02.2021 - 12:49
Röð í COVID 19 próf í Kaupmannahöfn.
 Mynd: DR - Skjáskot
Allir íbúar í norðvesturhverfinu í Kaupmannahöfn þurfa að fara í Covid-próf um helgina vegna útbreiðslu suðurafríska afbrigðisins af Covid nítján þar. Þá greindist metfjöldi smita í Ósló í gær.

Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn sendu frá sér tilkynningu um smitin í norðvesturhverfinu síðdegis í gær. Ekki var upplýst hversu margir væru smitaðir, aðeins að þeir væru færri en tíu. Danska ríkisútvarpið greinir frá því að smitið hefði komið upp í tveimur nágrannafjölskyldum, sem hafi annars ekki mikil samskipti sín á milli. Áður en þetta koma upp höfðu þrettán tilfelli greinst af suðurafríska afbrigðinu í Danmörku, en það hefur einnig greinst í Svíþjóð.

Prófunin gerist með tvennum hætti - annars vegar er fólk boðað með textaskilaboðum í síma og hins vegar er gengið í hús. Fjöldi fólks hefur þegar flykkst í Covidpróf í dag.

Jens Lundgreen prófessor við ríkissjúkrahús Danmerkur segir nauðsynlegt að koma böndum á afbrigðið. „Þetta var ekki það sem við þurftum á að halda, segir Lundgreen. Bæði er þetta afbrigði, rétt eins og það breska, meira smitandi en það sem við var að fást í haust auk þess sem vísbendingar eru um að bóluefni veiti ekki eins mikla vernd gegn þessu afbrigði eins og öðrum.“

En vandræði með Covid eru víðar á Norðurlöndum. 245 smit greindust í Ósló í gær. Þetta er það mesta sem hefur greinst í borginni á einum degi, og helmingi fleiri en að meðaltali síðustu vikuna. Camilla Stoltenberg forstjóri lýðheilsustofnunar Noregs lýsir yfir áhyggjum af þróuninni. Ekki sé lengur öruggt að hægt sé að halda smitum niðri með prófunum, einangrun, sóttkví og smitrakningu.

Borgaryfirvöld í Ósló hafa boðað til blaðamannafundar á morgun vegna stöðunnar og þá verða boðaðar hertar aðgerðir þar.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV