
Sparkaði í lögreglubíl og reyndi að stinga af
Einn tók til við að ýta við lögreglumanni og var skipað að hætta því, hann fór svo út og sparkaði í lögreglubíl og hljóp svo á brott. Lögreglan sá til hans, hljóp hann upp, handsamaði og kom fyrir í fangageymslu meðan málið er rannsakað. Í dagbók lögreglu segir að ætluð fíkniefni hafi fundist á manninum.
Óboðnir gestir mættu í afmælisveislu í Mosfellsbæ og sló einn þeirra afmælisgest í höfuðið með flösku á fjórða tímanum í nótt. Þegar lögreglu bar að garði hafði árásarmaðurinn komið sér á brott en sá sem sleginn var hlaut skurð á enni. Ekki þótti ástæða til að kalla eftir sjúkrabíl.
Bifreið var ekið á aðra miðsvæðis í Reykjavík um áttaleytið í gærkvöldi. Sá sem tjóninu olli ræddi við þann sem fyrir varð og ók loks á brott eftir að hinn kvaðst ætla að kalla til lögreglu.
Lögregla handtók þann sem stakk af síðar um kvöldið og vistaði í fangageymslu. Maðurinn er grunaður um ölvunarakstur.