Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ellefu skjálftar yfir þremur að stærð frá miðnætti

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ekkert lát er á skjálftavirkninni á Reykjanesskaga, og segist náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands ekki muna eftir annarri eins hrinu. Frá miðnætti hafa ellefu skjálftar mælst þrír eða stærri. Sá stærsti þeirra mældist 3,8 um klukkan hálf þrjú í nótt.

Á vef Veðurstofunnar segir að yfir sjötíu skjálftar hafi mælst þrír eða stærri síðustu tvo sólarhringa. Þá eru ótaldir skjálftarnir sem urðu í byrjun hrinunnar, á miðvikudag, þar sem sá stærsti mældist 5,7 að stærð. Sá stærsti sem hefur mælst síðasta sólarhringinn varð á ellefta tímanum í gærkvöld. Sá mældist 4,9 að stærð.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvaktar Veðurstofu Íslands, sagði í miðnæturfréttum í gær að ekki væri hægt að útiloka stærri skjálfta í þessari hrinu en þann sem varð á miðvikudag. Virknin nú sé óvenjuleg, og þurfi að leita allt aftur til ársins 1973 til þess að finna viðlíka jarðskjálftahrinu á þessu svæði.

Uppfært klukkan 06:08: Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að yfir 400 skjálftar hafi mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Þeir stærstu, sem mældust 3,8 og 3,7, fundust á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi.