Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fótur meints svikahrapps finnst í fjöru

26.02.2021 - 06:42
epa07007600 Forensic police officers are seen next to a property in Bedford, Perth, Western Australia, Australia, 09 September 2018. Five bodies have been discovered at a home in suburban Perth with homicide squad detectives investigating. According to
 Mynd: epa
Lögreglan í Ástralíu greindi frá því í gær að fótur Melissu Caddick, sem hvarf fyrir fjórum mánuðum, hafi fundist. Caddick er grunuð um stórfelld svik gagnvart viðskiptavinum sínum, en hún hvarf daginn eftir að lögregla gerði húsleit á heimili hennar í nóvember í fyrra.

Fólk í útilegu hafði samband við lögreglu í síðustu viku eftir að hafa fundið skó í fjöru um 400 kílómetrum suður af Sydney. Í skónum var rotinn fótur, sem samkvæmt DNA rannsókn var áður áfastur líkama Caddick. Mick Willing, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar í Nýju Suður-Wales, segir að áætluð dánarstund og dánarorsök verði nú ákvörðuð út frá fætinum. Ekki sé hægt að útiloka neitt á þessari stundu, að sögn Willings, og lögreglan hafi alltaf talið líkur á að hún gæti fyrirfarið sér. Samkvæmt hafstraumalíkani lögreglunnar er mögulegt að Caddick hafi farið út í sjóinn nærri heimili sínu í Sydney.

Stal af yfir sextíu viðskiptavinum

Caddick var 49 ára gömul þegar hún hvarf 12. nóvember í fyrra. Sonur hennar og eiginmaður töldu að hún hefði farið út að skokka, en tilkynntu um hvarf hennar þegar hún skilaði sér ekki heim. Hún skildi alla persónulega muni eftir heima. 

Caddick vann sem fjármálaráðgjafi, og er sökuð um að hafa stolið milljónum ástralíudala af viðskiptavinum sínum. Samkvæmt áströlskum yfirvöldum er talið að yfir sextíu viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á henni, og hún hafi sankað að sér minnst þrettán milljónum dala, jafnvirði um 1,3 milljörðum íslenskra króna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV