
Dómsmálaráðherra boðar aðgerðir gegn glæpahópum
Í greininni boðar ráðherra frekari aðgerðir til að bregðast við þessu, meðal annars sérstakt 350 milljóna króna framlag í löggæslusjóð til að efla lögregluna í aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Áslaug Arna segir í grein sinni að nauðsynlegt sé að auka skilvirkni á þessu sviði. „Íslenska lögreglan þarf að hafa getu og þekkingu til að takast á við umfangsmikil, flókin og þaulskipulögð mál,“ segir í greininni. Þar segir að sérstakur stýrihópur hafi síðustu mánuði unnið að því að samhæfa aðgerðir, auka samstarf á milli lögregluembætta, auka alþjóðlega samvinnu og gagnkvæmt samstarf við önnur stjórnvöld og stofnanir.
„Brýnt er að íslenska lögreglan - og í raun íslenska réttarkerfið - hafi burði, getu og þekkingu til að takast á við þau flóknu verkefni sem við blasa í harðnandi heimi skipulagðrar glæpastarfsemi,“ segir Áslaug Arna í grein sinni.