
Bandaríkjaher gerir loftárás í Sýrlandi
Árásirnar eru gerðar eftir flugskeytaárásir á bandarísk skotmörk í Írak undanfarið. AFP fréttastofan hefur eftir John Kirby, talsmanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins, að Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi gefið skpun um árásirnar.
Kirby sagði árásirnar hafa verið gerðar á landamærastöð. Þar haldi til írakskar vígasveitir, sem njóta stuðnings íranskra stjórnvalda. Engar upplýsingar voru gefnar um mannfall í árásinni.
Þrjár flugskeytaárásir hafa verið gerðar á bækistöðvar bandaríska hersins og fjölþjóðlegrar hersveitar sem berst gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki í Írak. Almennur borgari féll í einni árásanna auk starfsmanns verktaka sem vinnur fyrir fjölþjóðaherinn. Fjöldi bandarískra verktaka og hermanna særðist í þeirri árás.
Kirby sagði árásirnar í Sýrlandi í samræmi við árásirnar sem gerðar voru í Írak. Á sama tíma væri unnið að diplómatískum aðgerðum. Hann sagði árásirnar eiga að draga úr spennu í austanverðu Sýrlandi og Írak. Aðgerðin sendi skýr skilaboð um að Biden ætli sér að vernda líf bandarískra hermanna og hermanna fjölþjóðaherdeildarinnar.