Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkjaher gerir loftárás í Sýrlandi

26.02.2021 - 01:25
150510-N- ZZ070-002 SOUTH CHINA SEA (May 10, 2015) A Royal Malaysian Air Force SU-30MKM/Flanker H, flies above the aircraft carrier USS Carl Vinson (CVN 70) during a bi-lateral exercise aimed at promoting interoperability with the Malaysian Royal
Þota af gerðinni SU 30, eins og þær sem Kínverjarnir flugu til móts við bandarísku vélina. Mynd: Wikimedia Commons
Bandaríkjaher gerði í kvöld loftárás á mannvirki í Sýrlandi sem vígamenn eru sagðir nota sem bækistöðvar sínar. Vígahreyfingin er sögð njóta stuðnings íranskra stjórnvalda.

Árásirnar eru gerðar eftir flugskeytaárásir á bandarísk skotmörk í Írak undanfarið. AFP fréttastofan hefur eftir John Kirby, talsmanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins, að Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi gefið skpun um árásirnar. 

Kirby sagði árásirnar hafa verið gerðar á landamærastöð. Þar haldi til írakskar vígasveitir, sem njóta stuðnings íranskra stjórnvalda. Engar upplýsingar voru gefnar um mannfall í árásinni.

Þrjár flugskeytaárásir hafa verið gerðar á bækistöðvar bandaríska hersins og fjölþjóðlegrar hersveitar sem berst gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki í Írak. Almennur borgari féll í einni árásanna auk starfsmanns verktaka sem vinnur fyrir fjölþjóðaherinn. Fjöldi bandarískra verktaka og hermanna særðist í þeirri árás.

Kirby sagði árásirnar í Sýrlandi í samræmi við árásirnar sem gerðar voru í Írak. Á sama tíma væri unnið að diplómatískum aðgerðum. Hann sagði árásirnar eiga að draga úr spennu í austanverðu Sýrlandi og Írak. Aðgerðin sendi skýr skilaboð um að Biden ætli sér að vernda líf bandarískra hermanna og hermanna fjölþjóðaherdeildarinnar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV