Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfirheyrslur sakborninga í morðmálinu í fullum gangi

25.02.2021 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Rannsókn lögreglu á morðinu á Armando Bequiri, sem var skotinn til bana við heimili sitt við Rauðagerði, miðar nokkuð vel. Yfirheyrslur yfir þeim sjö sakborningum sem eru í haldi standa enn yfir og halda eitthvað áfram. Sömuleiðis er verið að bera saman sönnunargögn í málinu, sem fylgir mikil vinna. Yfir tuttugu manns vinna nú að rannsókn málsins, og engu öðru.

Fimm voru úrskurðuð í áframhaldandi vikulangt gæsluvarðhald í gær, allt útlendingar. Gæsluvarðhald yfir eina Íslendingum sem er í haldi var sömuleiðis framlengt um viku í fyrradag, en varðhald yfir þeim sjöunda rennur út á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á áframhaldandi varðhald yfir honum. 

Morð, peningaþvætti og fjársvik

Lögreglan hefur sagt að hún telji að skotmaðurinn sé í haldi, þó að hún hafi ekkert viljað gefa upp hver sé grunaður um sjálfan verknaðinn. Alls eru 12 manns með réttarstöðu sakbornings í málinu. Meðal þess sem lögreglan er að rannsaka, fyrir utan morðið, er mögulegt peningaþvætti, fjársvik og brot á vopnalögum.