Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur dóminn ýta undir að keðjuábyrgð verði sniðgengin

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá kröfum fjögurra rúmenskra verkamanna á hendur starfsmannaleigunni Menn í vinnu og fyrirtækinu Eldum rétt. Forsvarsmenn Manna í vinnu voru sýknaðir af kröfunum.

Starfsfólkið fyrrverandi sakar fyrirtækin um vangreiðslu launa, ólögmætan launafrádrátt, vanvirðandi meðferð og nauðungarvinnu.

Stuttu eftir að málið var þingfest varð starfsmannaleigan Menn í vinnu gjaldþrota og þegar kom að dómi var skiptum lokið og fyrirtækið afskráð. Í dómnum segir að því verði ekki gengið að neinum kröfum sem lúta að ófullnægðum eftirstöðvum lýstra krafna eða vanlýstum kröfum og er vísað til þess að ekki hafi verið lögð fram gögn um að stefnendur hafi gert athugasemdir við að skiptum yrði lokið.

Dómurinn metur málflutning starfsmannanna um frádrátt frá launum ótrúverðugan. Hann stangist á við gögn sem fólkið lagði sjálft fram. Starfsfólkið hafi sætt frádrætti í samræmi við samningsákvæði. 

Gæti orðið auðvelt að sniðganga keðjuábyrgð

Þá segir að með því að vísa frá kröfum á hendur starfsmannaleigunni sé ekki hjá því komist að vísa málinu einnig frá gagnvart notendafyrirtækinu Eldum rétt.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður verkamannanna, segir hætt við að það verði auðvelt að sniðganga ákvæði um keðjuábyrgð, fái dómurinn að standa. „Við finnum ekki stoð fyrir því í lögum að það hafi verið rétt að vísa málinu gegn Eldum rétt frá dómi. Krafan á hendur Eldum rétt var byggð á svokallaðri keðjuábyrgð, að notendafyrirtækin bera ákveðna ábyrgð á efndum vinnusamnings gagnvart starfsmanni hjá starfsmannaleigu,“ segir Ragnar í samtali við fréttastofu. 

Rúmenska starfsfólkið stefndi líka forsvarsmönnum Manna í vinnu en þeir voru sýknaðir af kröfunum. „Niðurstaða dómsins um það atriði var afar snubbótt, að það væru eingöngu Menn í vinnu sem gætu borið skaðabótaábyrgð gagnvart starfsmönnunum en ekki stjórnendur, alveg án tillits til þess hvað þeir gerðu,“ segir Ragnar. 

„Samkvæmt dómnum getur atvinnurekandi á 21. öld hagað sér þannig að draga frá launum starfsmanna sinna hvers kyns kostnað sem hann telur sig hafa lagt út fyrir án þess að fá viðurkenningu starfsmannanna fyrir því að hann sé raunverulegur, til dæmis húsaleiga sem er einhliða ákveðin af atvinnurekandanum. Þetta er mál sem verkalýðshreyfingin barðist fyrir í upphafi síðustu aldar og svo voru sett lög tvívegis á síðustu öld gegn þessu, en þetta virðist vera að vakna aftur á okkar dögum,“ segir Ragnar. 

SA sakar Eflingu um aðför að Eldum rétt

Efling, stéttarfélag þeirra sem stefndu, tilkynnti í morgun að félagið myndi styðja félagsmennina fjóra til að skjóta dómnum til Landsréttar. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að Efling hafi haldið uppi tilefnislausum ásökunum á hendur Eldum rétt og segir dóminn skýran. „Efling stéttarfélag hafði upp stór orð í fjölmiðlum og sakaði fyrirtækið Eldum rétt meðal annars um að nýta sér bágindi verkafólks og skipta við starfsmannaleigu sem framkvæmdastjóri Eflingar kallaði „einhvers konar mansalshring,“ segir í yfirlýsingu á vef SA. 

„Aðalatriðið er að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá öllum kröfum sem hafa komið fram í þessu máli. Og það sem er mest um vert er að dómurinn telur að laun hafi verið í samræmi við kjarasamninga og greidd að fullu, löglegt hafi verið að draga frá launum húsaleigu og flugfargjöld,“ segir Halldór í samtali við fréttastofu.

Forsvarsmenn ósammála starfsfólki um aðbúnað

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að starfsfólkið byggi á því að það hafi búið við ómannúðlegar aðstæður við Dalveg 24 í Kópavogi, húsnæði sem Menn í vinnu hafi útvegað þeim. Í stefnunni segi að þar hafi starfsfólk gist 6-8 saman í herbergi. Þá segir í dómnum að málflutningur starfsfólksins um þetta atriði fyrir dómi hafi verið reikull og ekkert þeirra hafi haldið því fram fyrir dómi að 6-8 hefðu deilt herbergi. Þá vísar dómurinn til ljósmynda frá forsvarsmönnum Manna í vinnu sem einn starfsmannanna segir að séu teknar á hóteli þar sem fólkið gisti síðar. 

Í yfirlýsingu á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins segir að dómurinn sýni að lýsing Eflingar á aðbúnaði starfsmanna hafi ekki verið í samræmi við staðreyndir málsins. Og Halldór Benjamín segir að það sé meðal þess sem veki áleitnar spurningar um heilindi Eflingar í þessu máli. 

Ragnar segir að dómurinn snúist ekki um mat Eflingar á aðbúnaðnum. „Heldur mat verkamannanna sem vita þetta betur. Og þeir báru um aðbúnaðinn fyrir dómi. Hins vegar bar einnig sú kona sem stjórnaði Mönnum í vinnu, Halla Rut, hún lýsti aðbúnaðnum sem hinum besta og dómarinn virðist telja rétt að miða við það,“ segir hann. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV