Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Semenya leitar til Mannréttindadómstóls Evrópu

epa06136052 South Africa's Caster Semenya reacts after competing in the women's 800m heats at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 10 August 2017.  EPA/JEAN-CHRISTOPHE BOTT
 Mynd: EPA

Semenya leitar til Mannréttindadómstóls Evrópu

25.02.2021 - 13:25
Suður-afríska hlaupakonan Caster Semenya, tvöfaldur Ólympíumeistari og þrefaldur heimsmeistari í 800 metra hlaupi, hefur ákveðið að fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Semenya er meinað að keppa í hlaupum frá 400 metrum til mílu vegna magns testósteróns í líkama hennar.

Árið 2019 setti Alþjóða frjálsíþróttasambandið, IAAF, reglu sem kveður á um að keppendur sem eru með hækkað magn náttúrulegs testósteróns í líkamanum verði að taka hormónabælandi lyf til að mega keppa. Þessi regla gildir þó aðeins um keppnir í hlaupum frá 400 metrum og til mílu, sem er 1,6 km.

Mörgum fannst eins og reglunni væri beint sérstaklega að Caster Semenya sem hefur um nokkurra ára skeið verið afar sigursæl í 800 metra og 1500 hlaupi. Þurfti Semenya meðal annars að sanna kynferði sitt í prófi árið 2009 eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil í 800 metra hlaupi.

Caster Semenya hefur barist hart gegn þessari reglu síðustu ár. Hún kærði regluna en tapaði fyrir dómstóli Alþjóða frjálsíþróttasambandsins. Þá kærði hún til alþjóða íþróttadómsstólsins í Sviss, CAS, en tapaði einnig. Hún áfrýjaði úrskurði CAS til svissneskra dómstóla sem enn og aftur höfnuðu kröfum hennar.

Semenya ætlar nú með málið fyrir Mannréttindadómstólinn en hún vonast til þess að geta keppt á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. „Það eina sem við erum að biðja um er að við fáum hlaupa frjálsar. Við erum sterkar og óttalausar konur og höfum alltaf verið,“ segir Semenya, en lögmenn hennar munu byggja kröfuna á því að verið sé að brjóta á mannréttindum Semenya.

Frétt BBC um málið.